Svíi fékk dauðadóm vegna fíkniefnabrots

Fjórir sænskir menn hafa verið dæmdir til dauða.
Fjórir sænskir menn hafa verið dæmdir til dauða. Ljósmynd/Unsplash/Adam Gavlák

Fjórði Svíinn sem var dæmdur til dauða í Írak í síðasta mánuði er 35 ára gamall karlmaður. Hann hlaut dóminn vegna fíkniefnabrots. 

Sænska ríkisútvarpið greinir frá.

Þrír aðrir Sví­ar fengu dauðadóm í Írak í síðasta mánuði, en þeir dómar teng­jast öðru máli. Þeir voru sak­felld­ir fyr­ir morðið á Mu­stafa „Benzema“ Alji­buri sem var leiðtogi sænsku glæp­sam­tak­anna Foxtrot. Sænsk stjórn­völd hafa mót­mælt refs­ing­unni.

Maðurinn sé hræddur

Ættingjar mannsins segja við sænska ríkisútvarpið að hann hafi játað brotið vegna pyntinga. Þeir segja manninn hræddan og hann vilji koma heim til Svíþjóðar.

Sænska ríkisútvarpið hefur dóminn undir höndum. Í honum kemur fram að maðurinn og tveir aðrir hafi fundist með rúmlega 300 grömm af kannabisi í vörslum sínum í höfuðborg Íraks, Bagdad.

Maðurinn hafði ferðast til Íraks í frí í desember. Skömmu síðar missti fjölskylda hans í Svíþjóð allt samband við hann. Maðurinn er með tvöfalt ríkisfang, sænskt og íraskt. Hann hefur áður verið dæmdur fyrir minniháttar afbrot í Svíþjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert