Verja fjölskylduna vopnaðir hríðskotabyssum

Skrugguleiftur á himni yfir Schönbrunn-höll í Vínarborg, í mánuðinum sem …
Skrugguleiftur á himni yfir Schönbrunn-höll í Vínarborg, í mánuðinum sem leið. Talið er að rússneskum njósnurum hafi fjölgað mjög í borginni að undanförnu. AFP

Austurrískir sérsveitarmenn vopnaðir hríðskotabyssum standa vörð við reisulega byggingu í hjarta Vínarborgar. Innan veggja hennar er þó ekki að finna þjóðarleiðtoga, ráðherra eða stjórnarerindreka neins konar.

Þvert á móti dvelur þar fjölskylda blaðamanns sem valdi borgina til búsetu fyrir tveimur áratugum.

Blaðamaðurinn, Christo Grozev, flúði borgina í fyrra eins og mbl.is fjallaði um í febrúar á síðasta ári. Austurríska leyniþjónustan og löggæsluyfirvöld í Bandaríkjunum höfðu þá varað hann við því að útsendarar Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta væru á eftir honum.

Vildu þeir hann feigan.

Blaðamaðurinn Christo Grozev hafði búið í Vín í nærri tvo …
Blaðamaðurinn Christo Grozev hafði búið í Vín í nærri tvo áratugi áður en hann neyddist til að flýja hana á síðasta ári. AFP

Á við öryggisgæslu kanslarans

Nú – um einu og hálfu ári síðar, þegar Grozev snýr aftur frá Bandaríkjunum til að heimsækja fjölskyldu sína, nýtur hann öryggisgæslu frá ríkinu sem jafnast á við umstangið í kringum sjálfan kanslarann.

Frá þessu greinir bandaríska dagblaðið Wall Street Journal, sem byggir umfjöllun sína á frásögnum fjölda heimildarmanna innan stjórnkerfa Austurríkis, Evrópu og Bandaríkjanna.

Grozev hefur verið Kremlverjum óþægur ljár í þúfu, enda hafa fáir varpað jafn miklu ljósi á þau grimmdarverk sem þangað má rekja. Leiddi hann áður rannsóknir miðilsins Bellingcat í málefnum Rússlands en starfar nú meðal annars fyrir þýska dagblaðið Spiegel.

Þau launráð sem honum voru brugguð í Vín eru ekki einsdæmi og þykja til marks um hvernig borgin hefur gengið í endurnýjun lífdaga, en þá aðeins í fornfrægu hlutverki sínu sem grómtekið njósnarabæli og fylgsni flugumanna.

Austurríska lögreglan á varðbergi í miðborg Vínar. Öryggisgæslan í kringum …
Austurríska lögreglan á varðbergi í miðborg Vínar. Öryggisgæslan í kringum Grozev þykir jafnast á við þá sem sjálfur kanslarinn nýtur. AFP

Reknir úr landi og snúa sér til Vínarborgar

Stjórnvöld í höfuðborgum Evrópuríkja gripu mörg til þess ráðs, í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu í febrúar árið 2022, að vísa úr landi rússneskum njósnurum sem þóst höfðu reka þar meinlausari erindi.

Alls þurftu um 600 njósnarar að taka pokann sinn og hverfa á brott úr viðkomandi löndum.

En tugir þeirra hafa síðan skotið upp kollinum í Austurríki, að sögn embættismanna innan leyniþjónustu landsins.

Á sama tíma hefur rússneskum ríkisstarfsmönnum í Austurríki fjölgað svo um munar. Telja þeir nú á sjötta hundrað, en voru áður á bilinu 300-400. 

Allt að helmingur þeirra vinnur að njósnum fyrir Rússland, eftir því sem leyniþjónustan í Vín kemst næst.

Frá hinu árlega Óperuballi í Vínaróperunni. Með sjálf­stæði Aust­ur­rík­is árið …
Frá hinu árlega Óperuballi í Vínaróperunni. Með sjálf­stæði Aust­ur­rík­is árið 1955 varð Vín eins kon­ar út­vörður Vest­ur-Evr­ópu. AFP

Yfir fjörutíu byggingar

Svo rammt kveður að þessu að þegar Þjóðverjar létu loka rússnesku ræðismannsskrifstofunni í München á síðasta ári – og fullyrtu að þar hefði fjöldi njósnara búið um sig – flutti starfsliðið einfaldlega yfir landamærin og til Salzburg, að því er austurrískir embættismenn tjá Wall Street Journal.

Vínarborg hefur sjálf umbreyst í bækistöð fyrir leynilegar aðgerðir Rússa, þar á meðal fjármögnun og skipulagningu morða, skemmdarverka og annarra aðgerða sem breiða eiga út rússnesk áhrif.

Rússneskir stjórnarerindrekar og starfslið þeirra starfa í yfir fjörutíu byggingum í borginni, sem eru í eigu yfirvalda í Moskvu og fólks eða fyrirtækja sem tengjast rússneska ríkinu.

Vart hefur einnig orðið við eftirlitstæki á þökum sumra húsanna, sem meðal annars eru notuð til að hlera fjarskipti um gervihnetti.

Minnismerkið um Maríu Teresu keisaraynju ber við himin í ljósaskiptunum …
Minnismerkið um Maríu Teresu keisaraynju ber við himin í ljósaskiptunum í Vín. Réð hún ríkjum þar á árunum 1740 til 1780. AFP

Fleiri þúsund njósnarar í borginni

Borgin hefur um áratuga skeið verið vinsæl meðal njósnara, eins og áður var vikið að, og fjallað var ítarlega um á mbl.is á síðasta ári.

Með sjálf­stæði Aust­ur­rík­is árið 1955 varð Vín eins kon­ar út­vörður Vest­ur-Evr­ópu, þótt stjórn­völd þar hefðu vissu­lega svarið þann eið að gæta hlut­leys­is svo Kreml gæti feng­ist til að sleppa tak­inu af austurhluta landsins.

Í kjöl­farið flutti þangað fjöld­inn all­ur af alþjóðastofn­un­um, sem gaf sendi­ráðum ástæðu til að fjölga í starfsliði sínu og stækka þannig skálka­skjól út­send­ara af ýms­um toga.

Járntjaldið féll síðar en njósn­ar­arn­ir urðu eft­ir, og alþjóðastofn­unum tók síður en svo að fækka. Breska dag­blaðið Tel­egraph greindi frá því árið 2014 að talið væri að fleiri en sjö þúsund njósn­ar­ar væru að störf­um í aust­ur­rísku höfuðborg­inni.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti virðist hafa skipað svo fyrir að Christo …
Vladimír Pútín Rússlandsforseti virðist hafa skipað svo fyrir að Christo Grozev skuli ráðinn af dögum. AFP

Njósnahneyksli ógn við þjóðaröryggi

Einn þeirra er Austurríkismaðurinn Egisto Ott, sem hand­tek­inn var í lok mars vegna gruns um að hafa tekið af­rit af sím­um hátt­settra emb­ætt­is­manna í inn­an­rík­is­ráðuneyt­inu og fram­selt viðkvæm­ar upp­lýs­ing­ar til fólks sem bendlað er við rúss­nesk­ar leyniþjón­ust­ur.

Ott þessi var áður út­send­ari sérstakrar aust­ur­rískr­ar leyniþjón­ustu, sem lögð var niður árið 2021. Er hann sakaður um að hafa meðal ann­ars selt upp­lýs­ing­arn­ar til Mart­ins Weiss nokk­urs, sem sjálf­ur var forðum deild­ar­stjóri inn­an þess­ar­ar sömu stofn­un­ar.

Málið, sem rataði upp á yfirborðið í byrjun apríl, hefur skekið samfélagið í landinu og segja má að stjórnkerfi þess hafi tekið að nötra strax í kjölfarið. 

„Egisto Ott-málið er ógn við lýðræðið og við þjóðarör­yggi lands­ins okk­ar,“ sagði kansl­ar­inn Karl Nehammer,

Málinu voru gerð skil á mbl.is fyrir þremur mánuðum.

Karl Nehammer, kanslari Austurríkis.
Karl Nehammer, kanslari Austurríkis. AFP

Komst yfir heimilisfang blaðamannsins

Þá vakti einna mesta athygli sú upp­ljóstrun viku­blaðsins Falter, að Ott er grunaður um að hafa á fölsk­um for­send­um kom­ist yfir heim­il­is­fang rann­sókn­ar­blaðamanns­ins Grozevs.

Blaðamaður mbl.is átti fund með Grozev í Hels­inki í októ­ber árið 2022. Spurður þá hvort hann óttaðist um líf sitt kvaðst hann vita að hann og blaðamenn Bell­ingcat væru á lista rúss­nesku leyniþjón­ust­unn­ar FSB, yfir fólk sem ráða ætti af dög­um.

„En þau standa frammi fyr­ir miklu stærri vanda­mál­um sem ógna til­vist þeirra,“ sagði hann og benti á að í stjórn­kerf­inu í Moskvu væri fólk frek­ar upp­tekið af starfs­ör­yggi sínu og framtíð.

Það átti eftir að breytast eins og síðar varð ljóst.

Frá Kreml. Stjórnvöld þar teygja anga sína víða.
Frá Kreml. Stjórnvöld þar teygja anga sína víða. AFP

Í áfalli eftir úrskurðinn

Ott var hnepptur í gæsluvarðhald í lok mars og sat þar þangað til áfrýjunardómstóll í Vín fyrirskipaði þann 26. júní að hann skyldi leystur úr haldi.

Í dómsúrskurðinum sagði að engin hætta væri talin á að hann myndi drýgja glæpi, yrði hann látinn laus. Tekið var þó fram að enn beindist rannsóknin að honum.

Ákvörðunin kom saksóknara Vínarborgar í opna skjöldu, eins og austurríska dagblaðið Standard greindi frá, og segir í umfjöllun blaðsins að starfslið embættisins sé í áfalli eftir úrskurðinn.

Lögreglan í Vínarborg að störfum.
Lögreglan í Vínarborg að störfum. AFP

Tjáði sig um niðurstöðuna

Ott hefur nefnilega sætt rannsókn, vegna gruns um njósnir, frá árinu 2017. Árið 2021 var hann svo í fyrsta sinn tekinn höndum og færður í varðhald.

Að mati dómsvaldsins nú gaf ekkert til kynna að hann hefði framið nokkurn glæp að því varðhaldi loknu, en slíkur grunur hefði nægt til áframhaldandi varðhalds.

Það er af þeim sökum sem saksóknarinn er furðu lostinn, því það var einmitt eftir varðhaldið – í mars árið 2021, sem Ott komst yfir heimilisfang Grozevs. Sumarið 2022 braust svo hópur rússneskra útsendara inn í íbúð Grozevs í Vín. Innbrotið var eitt þeirra atriða sem ollu því að hann yfirgaf borgina eftir að hafa dvalið þar öll þessi ár.

Grozev sjálfur gat ekki varist því að tjá sig um úrskurð dómstólsins:

Flúði land og undir verndarvæng Kremlar

Ott var tekinn höndum að nýju í mars síðastliðnum eftir að njósnayfirvöld í Lundúnum kváðu nafn hans hafa komið fyrir í skriflegum skeytasendingum grunaðs njósnara við Jan Marsalek. 

Marsalek þessi er fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri þýska fjár­mála­fyr­ir­tæk­is­ins Wirecard, sem komst í kast­ljósið árið 2020 þegar fyr­ir­tækið lýsti yfir gjaldþroti.

Var það gert eft­ir að end­ur­skoðend­ur höfðu kom­ist að þeirri niður­stöðu að reikn­ing­um fé­lags­ins skeikaði um sem nem­ur 1,9 millj­örðum evra, eða um 300 millj­örðum króna.

Marsalek, sem einnig er Aust­ur­rík­is­maður, hafði þá löng­um sveipað sjálf­an sig mik­illi dulúð og jafn­vel státað sig af meint­um tengsl­um við leyniþjón­ust­ur hinna ýmsu ríkja.

Hann flúði í kjöl­farið land og er nú tal­inn búa und­ir vernd­ar­væng Kreml­ar í Moskvu­borg og starfa fyrir leyniþjónustuna FSB þar í landi.

Áðurnefndur Martin Weiss, sem Ott er talinn hafa látið viðkvæmar upplýsingar í té, er svo talinn vera á mála hjá Marsalek.

Hjólað meðfram Dónárskurðinum í Vín. Borgin hefur umbreyst í bækistöð …
Hjólað meðfram Dónárskurðinum í Vín. Borgin hefur umbreyst í bækistöð rússneskra útsendara sem hrakist hafa á brott úr öðrum löndum Evrópu. AFP

Kosningar fram undan

Frá því Ott var handtekinn hafa upplýsingar lekið frá embætti saksóknarans, meðal annars þess efnis að rússneskir flugumenn tengdir hinum austurríska popúlíska Frelsisflokki, FPÖ, séu enn að störfum í Vín.

Herbert Kickl, leiðtogi FPÖ, gegndi embætti innanríkisráðherra árið 2018 þegar stjórnvöld réðust inn í leyniþjónustu landsins og gerðu þar húsleitir. Beið orðspor hennar um leið mikla hnekki.

Flokkurinn, sem hafði áður sérstakan samstarfssamning við flokk Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta, sat í ríkisstjórn Austurríkis á árunum 2017 til 2019.

Nú benda kannanir til þess að hann gæti borið sigur úr býtum komandi kosninga í september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka