Hver sitja í ríkisstjórn Starmers?

Ríkisstjórn Keir Starmer.
Ríkisstjórn Keir Starmer. AFP

Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, fundar nú í fyrsta sinn með ríkisstjórn sinni í kjölfar stórsigurs Verkamannaflokksins í þingkosningunum. Eftir fundinn, klukkan 13 að breskum tíma, mun Starmer halda blaðamannafund.

Kosningarnar og niðurstöður hennar þóttu sögulegur sigur fyrir Verkamannaflokkinn, sem hrepptu 412 þing­sæt­i af af 650 með sigrinum. Þess má þó geta að flokkurinn jók aðeins atkvæði sín um 2%. 

Voru kosningarnar á sama tíma þær verstu í manna minnum fyrir Íhaldsflokkinn, sem hefur verið við völd s.l. 14 ár.

Starmer mun seint gerast frægur fyrir persónutöfra sína að mati margra og er hann sömuleiðis talinn gjarn á að skipta um skoðanir eftir hentugleika.

Keir Starmer, forsætisráðherra.
Keir Starmer, forsætisráðherra. AFP

Starmer mun þó ekki fara einn með völdin. Alls eru 22 ráðherrar að Starmer meðtöldum, þar á meðal eru ellefu konur. Þá eru þrír einstaklingar í forystustöðum innan flokksins.

Angela Rayner - Varaforsætisráðherra 

Rayner hefur verið skipuð varaforsætisráðherra en fer einnig með málaflokk þróunar húsnæðis– og samfélagsmála.

Hún er fædd og uppalin í einum fátækasta félagsíbúðakjarna Bretlands, nærri Manchester–borg.

Hún eignaðist sitt fyrsta barn 16 ára gömul og hætti þá í námi. Hún snéri þó aftur á skólabekk síðar og starfaði fyrir verkalýðshreyfinguna Unison þar til hún varð þingmaður árið 2015.

Rayner átti undir högg að sækja í kosningabaráttunni þar sem fyrrum varaformaður Íhaldsflokksins, Michael Ashcroft, sakaði hana um að hafa komið sér undan því að greiða skatt af sölu heimilis síns. Skatturinn og lögreglan í Manchester hafa í kjölfarið staðfest að ásakanirnar eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum. 

Angela Rayner, varaforsætisráðherra.
Angela Rayner, varaforsætisráðherra. AFP

Rachel Reeves - Fjármálaráðherra

Reeves er fyrsta konan til að gegna embætti fjármálaráðherra í Bretlandi. Hún gegndi sama hlutverki í skuggaráðuneyti (e. shadow cabinet) Starmers frá 2021.

Reeves hefur heitið því að halda sig við núverandi fjármálaáætlun landsins og hefur unnið stóran hluta Lundúnarborgar á sitt band. Þá hefur hún fengið ýmsa leiðtoga úr atvinnulífinu til þess að lýsa yfir stuðningi við efnahagsstefnu Verkamannaflokksins. 

Hún starfaði sem hagfræðingur þar til hún komst á þing árið 2010. Systir hennar, Ellie Reeves, er einnig þingmaður flokksins. 

Rachel Reeves, fjármálaráðherra.
Rachel Reeves, fjármálaráðherra. AFP

David Lammy - Utanríkisráðherra 

Lammy er sonur innflytjenda frá Gvæjana í Suður Ameríku. Hann er fyrsti svarti Bretinn til að hljóta meistaragráðu í lögfræði við Harvard háskóla. 

Hann varð yngsti þingmaður Bretlandssögunar árið 2000 þegar hann varð þingmaður Tottenham, aðeins 27 ára að aldri. Hann starfaði síðar sem aðstoðarráðherra (e. junior minister) í stjórnartíð Tony Blair og síðar Gordon Brown.

Hann hefur lýst Donald Trump, fyrrum Bandaríkjaforseta og frambjóðenda, sem verjanda ný-nasista og siðleysingja. Hann hefur þó dregið í land með fullyrðingarnar í aðdraganda kosninganna vestanhafs og sagst muna finna sameiginlegan flöt með Trump verði hann forseti á ný.  

David Lammy, utanríkisráðherra.
David Lammy, utanríkisráðherra. AFP

Yvette Cooper - Innanríkisráðherra

Cooper var fyrst kjörin þingmaður árið 1997. Hún er engin græningi þegar kemur að ríkisstjórnarstarfi og hefur gengt embætti vinnumála- og lífeyrismálaráðherra og varð síðar fyrsta konan til að gegna embætti aðalritara ríkissjóðs.

Hún hefur verið „skuggi“ innanríkisráðherra í stjórnarandstöðunni frá árinu 2010.

Cooper starfaði áður sem blaðamaður. Hún var fyrsti ráðherrann í sögu Bretlands til þess að fara í fæðingarorlof og var sömuleiðis annar helmingur fyrstu hjónanna á þingi, en eiginmaður hennar, Ed Balls, er fyrrverandi menntamálaráðherra.

Yvette Cooper, innanríkisráðherra.
Yvette Cooper, innanríkisráðherra. AFP

Pat McFadden - Kanslari hertogadæmis Lancaster

Hertogadæmið Lancaster er einkaeign breska konungsins. Megintilgangur hertogaveldisins er að sjá konunginum fyrir sjálfstæðum tekjum.

McFadden er í raun ráðherra án ráðuneytis sem muni veita Starmer ráðgjöf í ýmsum málum.

Hann er fyrrum ráðgjafi Tony Blair og gegndi embætti viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Gordon Brown.

McFadden er sagður valdamesti stjórnmálamaður Verkamannaflokksins og sá sem fæstir þekkja til. 

Hann er sagður vera einn helsti hugmyndasmiður kosningabaráttu flokksins í ár. 

Pat McFadden, kanslari hertogadæmis Lancaster.
Pat McFadden, kanslari hertogadæmis Lancaster. AFP

Shabana Mahmood - Dómsmálaráðherra

Mahmood er lögfræðingur að mennt og starfaði sem lögmaður. Hún er önnur konan til að gegna embætti dómsmálaráðherra, á eftir Liz Truss.

Mahmood starfaði sem kosningastjóri Verkamannaflokksins í kjördæmi Batley og Spen árið 2021, en margir segja hana hafa bjargað formennsku Starmer eftir ósigur hans í Hartlepool-kjördæmi skömmu áður.

Hún kveðst sjálf vera fyrsti kvenkyns músliminn til að vera kjörinn á þing árið 2010, þrátt fyrir að tvær aðrar múslimskar konur væru kjörnar á þing sama ár.

Shabana Mahmood, dómsmálaráðherra.
Shabana Mahmood, dómsmálaráðherra. AFP

John Healy - Varnarmálaráðherra

John Healy, varnarmálaráðherra.
John Healy, varnarmálaráðherra. Ljósmynd/Wikipedia.org

Healey var fyrst kjörinn á þing árið 1997 og starfaði bæði undir Tony Blair og Gordon Brown, sem og í stjórnarandstöðu Ed Miliband og Jeremy Corbyn.

Hann hefur talað fyrir auknu fjármagni til varnarmála og gangrýnt fækkun í breska hernum harðlega.

Hann hefur, ásamt Lammy, heitið miklum stuðningi við Úkraínu.

Wes Streeting - Heilbrigðisráðherra

Streeting hefur setið á þingi síðan 2015. Hann hefur látið umdeild ummæli falla um heilbrigðiskerfi Bretlands. Meðal annars að ef hann yrði ráðherra myndi hann ekki þykjast og segja að kerfið sé öfundsvert á heimsvísu. 

Streeting hefur sjálfur reynslu af heilbrigðiskerfinu, en hann greindist með og sigraðist á nýrnakrabbameini árið 2021 aðeins 38 ára að aldri. 

Wes Streeting, heilbrigðisráðherra
Wes Streeting, heilbrigðisráðherra AFP

Bridget Phillipsson - Menntamálaráðherra

Bridget Phillipsson, menntamálaráðherra.
Bridget Phillipsson, menntamálaráðherra. Ljósmynd/Wikipedia.org

Phillippson hefur lengi talað fyrir breytingum í menntamálum þar sem börn fái ekki fyrsta flokks menntun í annars flokks skólum. Kveðst hún sjálf hafa alist upp við bág kjör og gengið í skóla sem var að niðurlotum kominn.

Hún segir frábæra kennara hafa hvatt sig til að sækja nám við Oxford-háskóla þar sem hún lærði nútímasögu. Hún gekk til liðs við Verkamannaflokkinn aðeins 15 ára gömul. 

Hún er sögð hluti af „topp-liði“ Starmers.

Ed Miliband - Orkumálaráðherra

Milliband er þekktastur sem fyrrum leiðtogi Verkamannaflokksins - eftir að hafa sigrað meðal annars bróður sinn David Milliband í leiðtogabaráttunni.

Milliband gegnir embætti orkumálaráðherra sem er ekki ósvipað hlutverki hans í síðustu ríkisstjórn Verkamannaflokksins þar sem hann gegndi embætti orkumála- og loftslagsráðherra.

Hann var ötull talsmaður grænna fjárfestinga á sínum tíma. Milliband hefur setið á þingi síðan 2005. 

Ed Miliband, orkumálaráðherra.
Ed Miliband, orkumálaráðherra. AFP

Liz Kendall - Vinnumarkaðs- og lífeyrisráðherra

Kendall er almennt talin vera á hægri væng Verkamannaflokksins. Hún vakti mikla athygli þegar hún bauð sig fram sem leiðtogi flokksins gegn Jeremy Corbin árið 2015. Kendall hlaut aðeins um 4,5% atkvæða.

Málflutningur hennar í leiðtogabaráttunni er aftur á móti sagður keimlíkur málaflutningi Starmer í nýliðinni kosningabaráttu, en Kendall talaði fyrir því að endurheimta traust almennings í efnahagsmálum.

Hún er eini ráðherrann sem hefur eignast barn með aðstoð staðgöngumóður, svo vitað sé til.

Kendall hefur setið á þingi síðan 2010. 

Liz Kendall, vinnumarkaðs- og lífeyrisráðherra.
Liz Kendall, vinnumarkaðs- og lífeyrisráðherra. AFP

Jonathan Reynolds - Viðskiptaráðherra

Reynolds er sjálfyfirlýstur kristinn sósíalisti og hefur státað sig mikið af vináttu sinni við Reeves fjármálaráðherra.

Hann hefur sagt hlutverk stjórnvalda ekki einungis vera að bregðast við mörkuðum heldur einnig að móta þá.

Hann hefur setið á þingi síðan 2010.

Jonathan Reynolds, viðskiptaráðherra.
Jonathan Reynolds, viðskiptaráðherra. AFP

Kyle hefur sagt það vera sér mikið hjartans mál að opna fyrir jákvæða þróun og tækifæri tengd gervigreind, þar sem að nýir og háþróaðir læknisskannar hefðu getað bjargað lífi móður hans sem lést úr lungnakrabbameini.

Kyle greindist með mikla lesblindu þegar hann var 25 ára gamall og stundaði doktorsnám.

Hann hefur verið þingmaður síðan árið 2015. 

Peter Kyle, vísinda-, nýsköpunar-, og tækniráðherra.
Peter Kyle, vísinda-, nýsköpunar-, og tækniráðherra. AFP

Louise Haigh - Samgönguráðherra

Louise Haigh, samgönguráðherra.
Louise Haigh, samgönguráðherra. AFP

Haigh var útnefnd vinnusamasti nýi ráðherrann árið 2016 í ljósi þess hve oft hún hélt ræður og lagði fram fyrirspurnir í pontu á fyrsta ári sínu á þingi.

Hún var áður skuggaráðherra Norður–Írlands í stjórnarandstöðunni en færði sig yfir í samgönguráðuneytið árið 2021.

Haigh er fyrrum trúnaðarmaður verkalýðsfélagsins Unite. Þá leiddi hún kosningaherferð Lisu Nandy árið 2019 áður en kosið var um nýjan formann flokksins. 

Steve Reed - Umhverfisráðherra

Málaflokkur ráðuneytis Reed nær yfir umhverfi, matvæli og landbúnað.

Reed hefur lengi talað fyrir því að Verkamannaflokkurinn verði flokkur landsbyggðarinnar og hefur verið talsmaður þess að ríkisstjórnin styðji betur við bændur í gegnum grænar umbreytingar.

Hann hefur verið þingmaður síðan árið 2012. 

Árið 2018 varð Reed fyrsti þingmaður Verkamannaflokksins til að ná í gegn lagafrumvarpi síðan flokkurinn hætti í ríkisstjórn árið 2010. Frumvarpið miðaði að því að koma í veg fyrir nauðung og dauðsföll fólks með geðsjúkdóma í lögregluhaldi.

Steve Reed, umhverfisráðherra.
Steve Reed, umhverfisráðherra. AFP

Lisa Nandy - Menningarráðherra

Ráðuneyti Mandy lítur að menningu, fjölmiðlun og íþróttum. 

Nandy bauð sig fram til leiðtoga Verkamannaflokksins á móti Starmer árið 2020 og lýsti einn þingmaður Íhaldsflokksins henni sem ferskum blæ fyrir Verkamannaflokkinn.

Hún er einn stofnenda samtakana Centre for Towns sem talar fyrir jöfnum tækifærum til þróunar og valddreifingu í Bretlandi. 

Lisa Nandy, menningarráðherra.
Lisa Nandy, menningarráðherra. AFP

Benn hefur setið á þingi síðan 1999. 

Hann sat á þingi undir stjórn Gordon Brown og Tony Blair. 

Benn er sonur fyrrverandi ráðherra og vinstri-baráttumannsins Tony Benn, sem sat í ríkisstjórn Harold Wilson og James Callaghan.

Hilary Benn, ráðherra Norður-Írlands.
Hilary Benn, ráðherra Norður-Írlands. AFP

Murray hefur setið á þingi síðan 2010 og starfaði áður sem viðburðastjórnandi.

Hann er álitinn til hægri í flokknum og hlaut stuðning bæði Tony Blair og Gordon Brown þegar hann sóttist eftir því að verða varaformaður flokksins árið 2020. Hann bar þó ekki sigur úr býtum heldur lenti í fjórða sæti. 

Murray hefur tvisvar verið eini ráðherrann með skoskt kjördæmi. 

Ian Murray, ráðherra Skotlands.
Ian Murray, ráðherra Skotlands. AFP

Stevens er fyrrum saksóknari og hefur setið á þingi síðan 2015. Hún hefur verið í Verkamannaflokknum í meira en 30 ár.

Hún segir áhugamál sín vera gott öl, góðar bækur, listir, tónlist og íþróttir. 

Jo Stevens, ráðherra Wales.
Jo Stevens, ráðherra Wales. Ljósmynd/Wikipedia.org

Lucy Powell - Leiðtogi neðri deildarinnar

Embættinu má líkja við forseta Alþingis. Powell hefur verið þingmaður síðan árið 2012 þegar hún hlaut kjör í Manchester Central. 

Hún er fyrrverandi herferðarstjóri Britain in Europe stuðningshóps ESB og studdi framboð Ed Milliband til leiðtoga flokksins árið 2010.

Lucy Powell, leiðtogi lávarðardeildarinnar.
Lucy Powell, leiðtogi lávarðardeildarinnar. AFP

Angela Smith, barónessa Smith af Basildon,  Leiðtogi lávarðadeildarinnar

Hún var þingmaður fyrir hönd Basildon-kjördæmis í ríkisstjórn Verkamannaflokksins á árunum 1997 til 2010 undir stjórn Sir Tony Blair og Gordon Brown.

Angela Smith, Baroness Smith of Basildon - Leiðtogi lávarða.
Angela Smith, Baroness Smith of Basildon - Leiðtogi lávarða. Ljósmynd/Wikipedia.org

Alan Campbell - Þingflokksformaður (e. chief whip)

Hlutverk Campbell er að tryggja að þingmenn sæki fundi og greiði atkvæði eftir þeim línum og stefnum sem forysta flokksins leggur. 

Campbell hefur verið á þingi síðan árið 1997. 

Hann starfaði áður sem sögukennari og var sleginn til riddara árið 2019.

Alan Campbell, þingflokksformaður.
Alan Campbell, þingflokksformaður. AFP

Darren Jones - Undirfjármálaráðherra

Darren Jones verður nýr undirfjármálaráðherra og mun sitja í ríkisstjórninni.

Jones hefur, ásamt fjármálaráðherranum Reeves, lagt mikið upp úr því að sannfæra leiðtoga úr atvinnulífinu um að Verkamannaflokkurinn muni tryggja efnahagslegan stöðugleika í landinu.

Hann hefur verið þingmaður síðan árið 2017.

Darren Jones, aðalritari ríkissjóðs.
Darren Jones, aðalritari ríkissjóðs. Ljósmynd/Wikipedia.org

Hermer mun sitja í ríkisstjórn sem aðallögfræðilegur ráðgjafi hennar. 

Skipan Hermer kom mörgum að óvörum þar sem Emily Thornberry hafið verið settur „skuggi“ embættisins í stjórnarandstöðunni. 

Hermer er ekki þingmaður og verður því veittur titill til að geta setið í ríkisstjórn. 

Hann býr að 31 árs reynslu sem lögmaður og hefur sérhæft sig í mannréttinda- og umhverfislögum og almannarétti.

Richard Hermer, lögfræðilegur ráðgjafi ríkisstjórnarinnar.
Richard Hermer, lögfræðilegur ráðgjafi ríkisstjórnarinnar. Ljósmynd/Breska Stjórnarráðið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert