Ísraelsher drap 16 í árás á skóla UNRWA

Strákar skoða rústirnar af skólanum sem Ísraelsher eyðilagði í dag.
Strákar skoða rústirnar af skólanum sem Ísraelsher eyðilagði í dag. AFP

Skólinn í Palestínu, þar sem 16 manns létu lífið í loftárásum Ísraelshers, er rekinn af Sameinuðu þjóðunum.

Heil­brigðisráðuneyti Palestínu, und­ir stjórn Ham­as-sam­tak­anna, tilkynnti í dag að Ísra­els­her hefði drepið 16 manns í loft­árás­um á skóla í Nu­seirat, sem er miðsvæðis á Gasa­svæðinu. Þar að auki hafi 50 manns særst í árásun­um. 

Flestir af þeim sem dóu voru börn, konur og eldra fólk, að sögn heilbrigðisráðuneytisins.

Skólinn er rekinn af Palestínuflótta­mannaaðstoð Sam­einuðu þjóðanna (UNRWA). Í kringum 7.000 manns höfðu leitað sér skjóls í skólanum þegar árásin átti sér stað.

Beindist að hryðjuverkamönnum

Ísraelsher segir að árásir hersins hafi beinst að „hryðjuverkamönnum“ sem störfuðu nálægt Al-Jawni-skólanum í Nuseirat.

Hryðjuverkamenn Hamas hafi falið sig á svæðinu og stjórnað þaðan árásum gegn Ísraelsher. „Skref voru tekin til þess að lámarka hættuna á því að særa almenna borgara,“ segir í tilkynningu Ísraelsmanna.

Heilbrigðisráðuneyti Hamas fordæmir árásina og segir hana vera „hræðilegt fjöldamorð“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert