Þjóðfylkingarflokkur Marine Le Pen hafnaði í þriðja sæti í annarri umferð frönsku þingkosninganna sem fóru fram í gær. Flokkurinn bar sigur úr býtum í fyrri umferð.
Þingkosningarnar í Frakklandi fara fram með sérstöku sniði. Ef enginn einn frambjóðandi fær meirihluta í sínu kjördæmi fara þeir frambjóðendur sem hljóta nægt fylgi áfram í næstu lotu þar sem kosið er á nýjan leik. Fyrsta kosningin fór fram 30. júní og sú síðari nú í gær.
Bandalag vinstriflokka, undir merkjum Nýju lýðfylkingarinnar (f. Nouveau Front populaire), hlaut flest þingsæti í síðari umferð þingkosninganna, eða 187 sæti. Næst flest sæti hlaut miðjubandalag Emmanuels Macrons Frakklandsforseta, með 159 sæti. Þjóðfylkingin fékk 142 sæti.
Alls eru 577 sæti á franska þinginu. 289 sæti þarf til að fá hreinan meirihluta. Ljóst er að enginn flokkur náði honum.
Forætisráðherra Frakka, Gabriel Attal, mun segja starfi sínu lausu í dag. Hann ætlar þó að halda áfram að gegna embættinu á meðan þörf krefur.