Maður í hjólastól kveikti í konungshöllinni

Lögreglumaður slekkur eldinn með handslökkvibúnaði. Maðurinn í hjólastólnum var handtekinn …
Lögreglumaður slekkur eldinn með handslökkvibúnaði. Maðurinn í hjólastólnum var handtekinn í kjölfar verknaðarins en hafði ekki sætt yfirheyrslu er VG fjallaði um atlöguna. Ljósmynd/Vegfarandi

Lögreglan í Ósló í Noregi handtók nú fyrir skömmu mann í rafknúnum hjólastól sem varpaði tveimur bensínsprengjum, svokölluðum mólótov-kokteilum, að konungshöllinni í miðborginni og tókst að kveikja í hurð á bakhlið hennar en lögregla réð niðurlögum eldsins.

Greinir vegfarandi frá því að maðurinn í hjólastólnum hafi gefið sig á tal við hann við höllina og sagst hafa tvær sprengjur í fórum sínum. Ók maðurinn stól sínum því næst aftur fyrir höllina, bar þar eld að sprengjum sínum og varpaði þeim að höllinni.

Hringdi sá, sem maðurinn hafði rætt við, þegar í lögreglu sem kom á vettvang og handtók árásarmanninn.

Fylgt út úr byggingunni

Tor Audunhus hjá norsku neyðarlínunni 110 staðfestir við ríkisútvarpið NRK að tilkynnt hafi verið um eld við höllina og hafi þrjár slökkviliðsbifreiðar haldið á vettvang ásamt lögreglu. Enn fremur staðfestir Roy Langengen lögregluvarðstjóri að eldur hafi kviknað en verið slökktur fljótlega.

Dagblaðið VG ræðir við Jan Ole Gregersen sem staddur var í höllinni með hópi sem þar var í skoðunarferð. „Okkur var þegar fylgt út úr byggingunni. Þegar þangað kom sáum við að eldur logaði neðst í hurð,“ segir Gregersen.

NRK

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert