Parkinson-læknir heimsótti Hvíta húsið átta sinnum

Spurningar hafa vaknað um heilsufar Joe Bidens Bandaríkjaforseta. Hvíta húsið …
Spurningar hafa vaknað um heilsufar Joe Bidens Bandaríkjaforseta. Hvíta húsið segir ekkert benda til þess að hann sé með Parkinson. AFP/

Á átta mánaða tímabili heimsótti sérfræðingur í lækningum við Parkinson-sjúkdómnum Hvíta húsið að minnsta kosti átta sinnum. Um er að ræða tímabilið frá júlí í fyrra til og með febrúar í ár.

Þetta kemur fram í svari Hvíta hússins við fyrirspurn bandaríska dagblaðsins New York Times. Téður sérfræðingur er dr. Kevin Cannard.

Í heimsóknaskránni sem fjölmiðillinn hefur undir höndunum kemur fram að fyrsta heimsóknin hafi verið í júlí 2023 og síðasta heimsókn hafi verið í febrúar þessa árs.

Þá mun Cannard einnig hafa átt fund með lækni Joe Bidens Bandaríkjaforseta.

Í yfirlýsingu Hvíta hússins segir að ekkert bendi til þess að Bandaríkjaforseti sé haldinn sjúkdómnum.

Starfað með Hvíta húsinu í 12 ár

Parkinson-sjúkdómurinn er taugahrörnunarsjúkdómur sem hefur áhrif á taugafrumur sem stjórna hreyfingum.

Ekki liggur fyrir hvort Cannard hafi heimsótt Hvíta húsið til þess að kanna sérstaklega hvort Biden væri með sjúkdóminn. Samkvæmt LinkedIn hefur hann starfað með hvítahúsinu í allt að tólf ár, þá einnig í valdatíð Baracks Obama og Donalds Trump.

Hvíta húsið sagði í febrúar að ekkert benti til þess að Bandaríkjaforseti væri með sjúkdóminn og telur ekki ástæðu til að taka hann í aðra skimun strax. Spurningar hafa vaknað um heilsufar Bidens að undanförnu, einkum eftir frammistöðu hans í kappræðum í lok júní.

Cannard brást ekki við ítrekuðum fyrirspurnum New York Times um viðbrögð, að sögn dagblaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert