Tíu aldraðir íbúar á hjúkrunarheimili fórust

Átta konur og tveir karlmenn fórust í eldsvoðanum.
Átta konur og tveir karlmenn fórust í eldsvoðanum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allir tíu aldraðir íbúar á hjúkrunarheimili í borginni Treinta í Úrúgvæ fórust í eldsvoða í gær en húsverðinum tókst að komast út í gegnum bílskúr byggingarinnar.

Slökkviliðsmenn komu að lokuðum aðalinngangi hússins en þegar þeim tókst að komast inn fundu þeir eldinn í stofu hússins þar sem reykur hafði breiðst út en í húsinu voru sex herbergi.

Átta konur og tveir karlmenn fórust í eldsvoðanum. Sjö íbúanna létust á vettvangi af völdum reyks en þrír voru fluttir alvarlega slasaðir á sjúkrahús þar sem þeir létust.

Karina Rando, heilbrigðisráðherra Úrúgvæ, sagði við fréttamenn að ekki væri útilokað að hitatæki hafi verið orsök eldsvoðans.

„Þetta var starfsstöð sem var í mjög góðu ástandi sem hafði nýlega gengist undir skoðun þar sem gerðar voru minniháttar athugasemdir,“ sagði Rando.

Fyrir tíu dögum síðan létust tveir, 77 ára karlmaður og 72 kona, þegar upp kom eldur á hjúkrunarheimili fyrir aldraða og fólk með geðraskanir í borginni Melo í Úrúgvæ. Fólkið lést á sjúkrahúsi en 40 aðrir voru fluttir í burtu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert