Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu, mætti til starfa á nýjan leik í dag, tæpum tveimur mánuðum eftir að hafa verið skotinn fjórum sinnum af stuttu færi þegar hann var að heilsa stuðningsmönnum eftir ríkisstjórnarfund.
Fico, sem var útskrifaður af sjúkrahúsi 31. maí, gekkst undir tvær stórar aðgerðir eftir skotárásina en byssumaðurinn var skáldið Juraj Cintula, sem er á áttræðisaldri. Hann er enn í haldi lögreglu og bíður réttarhalda.
Tilraunin að ráða forsætisráðherrann af dögum er sögð til marks um pólitískan klofning í Slóvakíu en Fico tók við embættinu í október eftir að flokkur hans Smer sigraði þingkosningarnar í landinu.
Fico er sagður hliðhollur Rússum en hann hefur til að mynda stöðvað vopnasendingar til Úkraínu. Hann er einnig sagður tengjast ítölsku mafíunni og kommúnistaflokknum í Tékklandi. Fico hefur oft verið gagnrýndur af Evrópusambandinu líkt og ungverski starfsbróðir hans, Viktor Orban.
„Kæru framsæknu frjálslyndu fjölmiðlar og stjórnarandstaða. Ég biðst afsökunar á að hafa lifað af en ég er kominn aftur,“ segir Fico í færslu á Facebook-síðu sinni.
Fico gengur nú um með hækjur.