Margar vikur eða jafnvel mánuðir gætu liðið áður en nýr forsætisráðherra tekur við stjórnartaumunum og myndar nýja ríkisstjórn í Frakklandi. Seinni umferð þingkosninganna lauk um helgina þar sem Nýja lýðfylkingin, bandalag vinstriflokka, hlaut flest þingsæti.
Björn Malmquist, fréttamaður á Rúv, hefur fylgst náið með kosningunum og ræðir niðurstöður þeirra í Dagmálum í dag.
„Stærsta niðurstaðan er kannski sú, að það er í rauninni stjórnleysi á franska þinginu. Það er enginn meirihluti, í fyrsta lagi, það er enginn sem nálægt því að vera með meirihluta. Og í öðru lagi, það er engin augljós leið til að mynda meirihluta,“ segir Björn.
Nýja lýðfylkingin tryggði sér 188 sæti á þinginu. Miðjubandalag Emmanuels Macrons Frakklandsforseta hlaut næst mest fylgi í kosningunum og tryggði sér 161 sæti. Þjóðfylking Marine Le Pen, sem vann góðan sigur í fyrri umferð kosninganna, tryggði sér 142 sæti. Alls eru 577 sæti á franska þinginu.
Björn segir langt á milli bandalags vinstriflokkanna og miðjubandalagsins. Það gefi til kynna að erfitt verði fyrir bandalögin að koma sér saman um að mynda meirihluta á þinginu.
Þáttinn í heild sinni má horfa á með því að smella hér fyrir neðan.