Handtekinn eftir umfangsmikla leit

Lögregla við húsið þar sem morðin voru framin á þriðjudagskvöld.
Lögregla við húsið þar sem morðin voru framin á þriðjudagskvöld. AFP

Karlmaður, sem talinn er hafa myrt þrjár konur í húsi í Bushey í norðurhluta Lundúna á þriðjudagskvöld, var handtekinn síðdegis í dag eftir umfangsmikla leit. 

Maðurinn, Kyle Clifford, fannst í kirkjugarði í Enfield  þar sem hann býr. Lögreglan sagði í yfirlýsingu að Clifford hefði fengið læknishjálp en hann hefði verið með áverka þegar hann fannst. Engum skotum var hleypt af. 

Talið er að maðurinn hafi skotið konurnar með lásboga en ekki sé útilokað að fleiri vopnum hafi verið beitt. Konurnar voru mæðgur, Carol Hunt, sem var 61 árs gömul og tvær dætur hennar, Hannah, 28 ára og Louise, 25 ára.

Eiginmaður Carol og faðir yngri kvennanna er John Hunt sem hefur fjallað um veðreiðar fyrir breska ríkisútvarpið BBC. Blaðið Daily Mail sagði á vef sínum að Clifford hefði átt í sambandi við aðra dótturina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert