Efasemda gætir í innsta hring forsetans

Biden hefur átt á brattan að sækja í kosningabaráttunni.
Biden hefur átt á brattan að sækja í kosningabaráttunni. AFP

Nokkr­ir ráðgjaf­ar Joes Bidens Banda­ríkja­for­seta ræða nú sín á milli um hvernig hægt sé að fá hann til að stíga til hliðar fyr­ir kom­andi kosn­ing­ar, að sögn fjöl­miðla vest­an­hafs. Hvíta húsið þver­tek­ur fyr­ir frá­sagn­irn­ar.

Frá þessu grein­ir dag­blaðið New York Times og seg­ir að sí­fellt fleiri aðstoðar­menn og ráðgjaf­ar Bidens, bæði úr kosn­ingat­eymi hans og Hvíta hús­inu, telji að for­set­inn þurfi að víkja úr kosn­inga­bar­átt­unni.

Biden hef­ur átt á bratt­ann að sækja í kosn­inga­bar­áttu sinni, einkum eft­ir brös­ug­lega frammistöðu í kapp­ræðum í lok júní.

Fjöldi sam­flokks­manna hans úr Demó­krata­flokkn­um hef­ur lýst áhyggj­um af heilsu hans og aldri. Nokkr­ir þing­menn hafa hvatt hann til að draga fram­boð sitt til baka, m.a. einn öld­unga­deild­arþingmaður. 

Þurfa að sann­færa hann um margt

Nokkr­ir ráðgjafa hans hafa und­an­farna daga leitað leiða til að sann­færa hann um nauðsyn þess að gera það sama, að sögn þriggja heim­ild­ar­manna blaðsins.

Lít­ill hóp­ur ráðgjafa Bidens – að minnsta kosti tveir þeirra hafa sagt banda­mönn­um sín­um að þeir telji að hann eigi ekki að reyna að bjóða sig fram til ann­ars kjör­tíma­bils – hef­ur sagt að þeir þurfi að sann­færa for­set­ann um ým­is­legt.

Ráðgjaf­arn­ir segj­ast þurfa að koma því á fram­færi við for­set­ann að hann geti ekki unnið gegn Don­ald J. Trump, fyrr­ver­andi for­seta Banda­ríkj­anna, að sögn heim­ild­ar­mann­anna.

Þeir verði að sann­færa hann um að ann­ar fram­bjóðandi eins og Kamala Harris vara­for­seti geti sigrað Trump í hans stað.

Auk þess verði þeir að full­vissa Biden um það að ef hann stígi til hliðar yrði ferlið við að velja ann­an fram­bjóðanda skipu­lagt og leiði ekki til glundroða í Demó­krata­flokkn­um.

Hvíta húsið þver­tek­ur fyr­ir frá­sagn­irn­ar.

„Það er al­veg ótví­rætt að þetta er ekki rétt,“ hef­ur dag­blaðið eft­ir Andrew Bates, tals­manni Hvíta húss­ins. „Teymi Bidens for­seta stend­ur þétt við bakið á hon­um.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert