Eftirlitsnefnd vill svör frá aðstoðarmönnum Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti. AFP

Eft­ir­lits­nefnd full­trúa­deild­ar Banda­ríkjaþings­ins hef­ur fyr­ir­skipað þrem­ur nán­um aðstoðarmönn­um Joe Biden Banda­ríkja­for­seta inn­an Hvíta húss­ins að sitja fyr­ir svör­um vegna heilsu­fars for­set­ans.

Nefnd­in er und­ir stjórn Re­públi­kana og vill rann­saka hvort ein­hverj­ir af nán­ustu aðstoðarmönn­um Bidens og hans teym­is hafi farið leynt með hvernig raun­veru­lega sé komið fyr­ir heilsu­fari for­set­ans.

Ax­i­os grein­ir frá þessu.

Áhyggj­ur af áhrif­um aðstoðarmann­anna

James Comer, formaður nefnd­ar­inn­ar, skipaði Ant­hony Bernal, aðstoðar­manni Jill Biden for­setafrú­ar, Annie Tom­asini, staðgengli starfs­manna­stjóra hvíta húss­ins, og Ashley Williams yf­ir­ráðgjafa að koma fyr­ir nefnd­ina.

Í bréf­un­um sem Comer rit­ar aðstoðarmönn­un­um kem­ur fram að nefnd­in hafi áhyggj­ur af því að aðstoðar­menn­irn­ir hefðu tekið það að sér að stjórna land­inu á meðan for­set­inn gæti það ekki.

„Nefnd­in leit­ast eft­ir að skilja um­fang áhrifa Bernals á for­set­ann og vitn­eskju hans um það hvort for­set­inn sé sjálf­ur að sinna embætt­is­skyld­um sín­um,“ seg­ir í bréf­inu til Bernals.

Póli­tískt högg á for­set­ann

Comer óskaði eft­ir því að aðstoðar­menn­irn­ir myndu svara nefnd­inni fyr­ir 17. júlí og að síðar í mánuðinum yrðu þau kölluð á fund nefnd­ar­inn­ar fyr­ir lukt­um dyr­um.

Ian Sams, talsmaður hvíta húss­ins, sagði í yf­ir­lýs­ingu að eins og allt sem þingmaður­inn Comer hefði gert und­an­far­in ár væri þetta til­hæfu­laust póli­tískt högg sem ætlað væri að fanga at­hygli fjöl­miðla.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert