Fyrstu vestrænu orrustuþoturnar eru nú á leið til Úkraínu. Er um að ræða vélar af gerðinni F-16 og koma þær frá Danmörku og Hollandi.
Fleiri þotur verða svo sendar frá Noregi og Belgíu.
Þetta sagði utanríkisráðherra Bandaríkjanna á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins (NATO) sem haldinn er í Washington í Bandaríkjunum.
„Í þessum töluðu orðum er verið að hefja flutning á F-16-orrustuþotum. Koma þær frá Danmörku og Hollandi. Þessar þotur verða í sumar á flugi í lofthelgi Úkraínu svo tryggja megi varnir Úkraínu gegn árás Rússlands,“ sagði ráðherrann og bætti við að afhending þotnanna væri skýr skilaboð til Rússlandsforseta.
„[Vladimír Pútín] mun ekki endast lengur en Úkraína. Hann mun ekki bíða okkur af sér. Ef hann sýnir þrjósku munu Rússland og hagsmunir þess halda áfram að skaðast. Sterk Úkraína er fljótlegasta leiðin í átt að friði.“
Moskvuvaldið hefur lengi varað við því að afhending á þessu vopnakerfi muni hafa „alvarlegar afleiðingar“ í för með sér – án þess þó að nefna þær.
F-16 er af flestum talin ein fjölhæfasta herþota sögunnar og eru alls um þrjú þúsund slíkar þotur í virkri herþjónustu hjá um 25 ríkjum heims.
Fimleiki og hraði eru lykileiginleikar F-16 en að auki býr hún yfir vopnaratsjá sem er mun öflugri og nákvæmari en vopnaratsjá þeirra flugvéla sem rússneski flugherinn notast við yfir vígvöllum Úkraínu.
Með þotunni munu úkraínskir flugmenn því sjá lengra en rússneskir andstæðingar þeirra.