Má ekki við því að misstíga sig í kvöld

Blaðamannafundurinn er áætlaður klukkan 22.30 að íslenskum tíma.
Blaðamannafundurinn er áætlaður klukkan 22.30 að íslenskum tíma. AFP

Mikilvægur prófsteinn er fram undan hjá Joe Biden Bandaríkjaforseta en í kvöld mun hann halda blaðamannafund þar sem hann leitast við að tryggja stöðu sína sem frambjóðandi demókrata.

Fundurinn er áætlaður klukkan 22.30 að íslenskum tíma og verður þetta fyrsti blaðamannafundurinn sem Biden heldur einn og sér í átta mánuði.

Enginn forseti hefur haldið jafn fáa blaðamannafundi á sínu fyrsta kjörtímabili og Biden í um fjóra áratugi.

Verður fylgst náið með forsetanum

Fylgst verður náið með því hvort forsetinn tafsi, gleymi því hvað hann ætlar að segja í miðri setningu, hvernig hann kemur fram og hversu langur fundurinn verður.

Vilji forsetinn stöðva fylgistapið, neikvæða fréttaumfjöllun og titringinn innan flokks er ljóst að hann má ekki við því að misstíga sig á þessari stundu.

Allt nötrar innan herbúða Demókrataflokksins í kjölfar kappræðna sem voru haldnar fyrir tveimur vikum. Níu þingmenn í fulltrúadeild Bandaríkjaþings hafa skorað á hann að draga framboð sitt til baka og einn í öldungadeildinni.

Þá eru enn fleiri þingmenn sem hafa gefið í skyn að þeim hugnist ekki staðan og þekktir stuðningsmenn flokksins hafa hvatt hann til þess að hætta framboði.

Slæmur sólarhringur að baki

Þá hefur síðasti sólarhringur verið sérstaklega slæmur fyrir Biden en Nancy Pelosi, þingmaður og einn mesti þungavigtarmaður flokksins, sagði í viðtali í gær að það væri undir Biden komið að taka ákvörðun um það hvort hann vildi halda áfram í framboði.

Biden hefur þó ítrekað sagt á síðustu dögum og vikum að hann ætli að halda áfram og því túlkuðu margir ummæli Pelosi sem beiðni um að hann endurskoðaði ákvörðun sína.

Peter Welch, öld­unga­deild­arþingmaður demó­krata frá Vermont-ríki, varð í gærkvöldi fyrsti þingmaður flokks­ins í öld­unga­deildinni til þess að skora á Biden að draga fram­boð sitt til baka. 

Banda­ríski leik­ar­inn Geor­ge Cloo­ney skoraði í gær einnig á Biden að draga framboðið til baka. Clooney er mikill styrktaraðili demókrata.  

Biden er staðfastur í því að hann muni ekki draga framboð sitt til baka, en þrír þættir gætu gert stöðu hans nánast ómögulega: Áframhaldandi stuðningstap innan flokks, minni fjáröflun en þörf er á og slæmar tölur úr skoðanakönnunum.

CNN

New York Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert