Joe Biden Bandaríkjaforseti kynnti Volodimír Selenskí Úkraínuforseta sem „Pútín forseta“ við athöfn á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í kvöld.
Hann leiðrétti sig skömmu eftir að hann lét orðin falla, en að sögn blaðamanna á staðnum var það eftir að viðstaddir höfðu kallað fram nafn Selenskís í kjölfar mistaka Bidens.
Biden kvaðst vera svo einbeittur að því að sigrast á Vladimír Pútín Rússlandsforseta að hann hefði ruglast, með þessum afleiðingum.
Kynnti hann þá Selenskí í pontu sem þakkaði forsetanum fyrir.
Enginn forseti hefur haldið jafn fáa blaðamannafundi á sínu fyrsta kjörtímabili og Biden í um fjóra áratugi, en gert er ráð fyrir að hann haldi blaðamannafund kl. 22.30 í kvöld.
Fylgst verður náið með því hvort forsetinn tafsi, gleymi því hvað hann ætlar að segja í miðri setningu, hvernig hann kemur fram og hversu langur fundurinn verður.
Vilji forsetinn stöðva fylgistapið, neikvæða fréttaumfjöllun og titringinn innan flokks er ljóst að hann má ekki við því að misstíga sig á þessari stundu.
Allt nötrar innan herbúða Demókrataflokksins í kjölfar kappræðna sem voru haldnar fyrir tveimur vikum. Níu þingmenn í fulltrúadeild Bandaríkjaþings hafa skorað á hann að draga framboð sitt til baka og einn í öldungadeildinni.
Þá eru enn fleiri þingmenn sem hafa gefið í skyn að þeim hugnist ekki staðan og þekktir stuðningsmenn flokksins hafa hvatt hann til þess að hætta framboði.