Peter Welch, öldungadeildarþingmaður demókrata frá Vermont, er fyrsti þingmaður flokksins í öldungadeild Bandaríkjaþings til þess að skora á Joe Biden Bandaríkjaforseta til að draga framboð sitt til baka.
„Það gæti ekki verið meira að veði. Við getum ekki horft fram hjá því að Biden forseti stóð sig skelfilega í kappræðunum. Við getum ekki hunsað eða vísað frá þeim réttmætu spurningum sem vaknað hafa frá því kvöldi,“ skrifaði Welch í grein í dagblaðið Washington Post þar sem hann lýsti yfir mikilli virðingu sinni fyrir forsetanum.
„Ég skil af hverju Biden forseti vill bjóða sig fram. Hann bjargaði okkur einu sinni frá Donald Trump og vill gera það aftur,“ hélt Welch áfram.
„En hann þarf að endurmeta hvort hann sé besti frambjóðandinn til þess. Að mínu mati er hann það ekki. Í þágu þjóðarinnar skora ég á Biden forseta að draga framboð sitt til baka.“
Hann skrifaði að Kamala Harris varaforseti væri hæfur og sannur leiðtogi en einnig að flokkurinn ætti innan sinna vébanda aðra unga og orkumikla ríkisstjóra og þingmenn í svokölluðum sveifluríkjum.
Sveifluríki [e. Swing states] eru nokkur mikilvæg ríki þar sem niðurstöður kosninganna geta farið á annan hvorn veg og ráða oft úrslitum forsetakosninga.
Níu þingmenn demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings hafa þegar skorað á Biden að draga framboð sitt til baka en eins og fyrr segir þá er Welch sá fyrsti í öldungadeildinni.
Michael Bennet, öldungadeildarþingmaður demókrata frá Colarado, sagði í gær að hann teldi að Biden myndi tapa kosningunum, en hvatti Biden þó ekki til að draga framboð sitt til baka.
Joe Biden var sjálfur í öldungadeildinni og hafa sumir álitsgjafar sagt að meiri vigt sé í áskorunum frá þingmönnum öldungadeildarinnar heldur en fulltrúadeildarinnar.