Allt nötrar áfram í herbúðum demókrata

Joe Biden á blaðamannafundinum í gær.
Joe Biden á blaðamannafundinum í gær. AFP/Mandel Ngan

Strax í kjöl­far blaðamanna­fund­ar Joe Bidens Banda­ríkja­for­seta fjölgaði í hópi þing­manna demó­krata á Banda­ríkjaþingi sem skora á for­set­ann að draga fram­boð sitt til baka.

Þar af var þunga­vigt­armaður­inn Jim Hi­mes, hæst setti Demó­krat­inn í leyniþjón­ustu­nefnd full­trúa­deild­ar­inn­ar. Nú eru á ann­an tug þing­manna flokks­ins sem skora á Biden að draga fram­boðið til baka. 

Ax­i­os grein­ir frá því að í sam­tali við tvo ónafn­greinda þing­menn demó­krata að Biden hafi ekki tek­ist að stöðva titr­ing­inn í Demó­krata­flokkn­um. 

Betri frammistaða en í kapp­ræðunum

Biden þykir hafa staðið sig bet­ur á blaðamanna­fundi sem hann hélt í gær en í kapp­ræðunum fyr­ir rúm­lega tveim­ur vik­um en þrátt fyr­ir það þá eru aðallega tvö at­vik sem fólk man helst eft­ir.

Nokkr­um klukku­tím­um fyr­ir blaðamanna­fund­inn kynnti hann Volodimír Selenskí Úkraínu­for­seta sem „Pútín for­seta“ og svo á sjálf­um blaðamanna­fund­in­um þegar hann vísaði til Kamölu Harris vara­for­seta síns sem Trumps vara­for­seta.

Í grein­ingu á CNN seg­ir að frammistaða hans hafi ekki bundið enda á fram­boð hans, en sanni engu að síður af hverju það sé svo erfitt fyr­ir Biden að bjarga fram­boðinu.

Ekki eini maður­inn sem get­ur sigrað Trump

Þá vakti at­hygli þegar Biden viður­kenndi í fyrsta sinn að hann væri ekki eini maður­inn sem gæti sigrað Don­ald Trump, fyrr­ver­andi Banda­ríkja­for­seta. Hann varði Kamölu Harris af mikl­um krafti og sagði hana hafa margt til brunns að bera.

Hann sagði að skoðanakann­an­ir sýndu að hann væri sig­ur­strang­leg­asti fram­bjóðand­inn til að sigra Trump en viður­kenndi jafn­framt í fyrsta sinn að aðrir demó­krat­ar gætu það líka.

„Ég tel mig hæf­ast­an til að stjórna og ég tel mig hæf­ast­an til að sigra, en það eru aðrir sem gætu sigrað Trump líka,“ sagði hann. „En það er voðal­ega erfitt að byrja frá grunni.“

„Eng­inn er að segja það“

Hann var spurður hvort hann myndi rétta Kamölu keflið ef hún myndi fá meira fylgi en hann í skoðana­könn­un­um en hann tók fyr­ir það. Þó sagði hann að ef kann­an­ir sýndu að hann ætti eng­an mögu­leika á sigri þá væri það annað mál.

„En eng­inn er að segja það,“ sagði hann.

Biden hét því að halda áfram í for­seta­kosn­ing­un­um. „Ég er ákveðinn í að bjóða mig fram,“ sagði Biden.

Hann gerði lítið úr því að skoðanakann­an­ir sýndu að hann sé að tapa á móti Trump og hélt því fram að hann væri hæf­ast­ur til að sinna starf­inu.

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, er orðuð við forsetatilnefningu Demókrataflokksins ef …
Kamala Harris, vara­for­seti Banda­ríkj­anna, er orðuð við for­seta­til­nefn­ingu Demó­krata­flokks­ins ef Biden ákveður að stíga til hliðar. AFP

Sýndi góðan skiln­ing á ut­an­rík­is­mál­um

Hann viður­kenndi þó að dag­skrá for­seta­embætt­is­ins væri orðin krefj­andi og kvartaði yfir því að starfs­menn hans ættu það til að setja of mikið á dag­skrá hjá hon­um.

Biden sýndi samt sem áður að hann hafði enn góðan skiln­ing á ut­an­rík­is­mál­um. Hann svaraði spurn­ing­um ít­ar­lega og lengi um ýmis ut­an­rík­is­mál, meðal ann­ars þegar hann sagðist reiðubú­inn að rjúfa sam­band Kína og Rúss­lands.

„Við verðum að tryggja að Xi skilji að það er til mik­ils að vinna,“ sagði Biden og vísaði til Xi Jin­ping, for­seta Kína.

CNN

New York Times

Ax­i­os

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert