„Er hæfasti maðurinn til að bjóða mig fram til forseta“

Joe Biden á blaðamannafundinum í gærkvöld.
Joe Biden á blaðamannafundinum í gærkvöld. AFP

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, sagði á blaðamannafundi í Washington í gærkvöld að hann ætli ekki að draga sig í hlé en þar svaraði hann spurningum blaðamanna um forsetatíð sína, von um endurkjör og sitt pólitíska líf.

Biden segist vera fullfær um að gegna forsetaembættinu en eftir frammistöðu Bidens þar sem hann mætti Donald Trump í kappræðum á CNN hafa margir, og ekki síst félagar hans í Demókrataflokknum, skorað á hann að draga framboð sitt til baka.

Biden sagði við fréttamenn að hann væri ekki að bjóða sig fram til að tryggja sína arfleið heldur til þess að klára þau verkefni sem hann hóf þegar hann tók við embætti árið 2021.

„Ef ég hægi á mér og get ekki unnið verkið, þá er það merki um að ég ætti ekki að gera það en það er ekkert sem bendir til þess enn þá," sagði hinn 81 árs gamli Biden og bætti við:

„Ég er hæfasti maðurinn til að bjóða mig fram til forseta. Ég vann Trump einu sinni, og ég mun vinna hann aftur,“ sagði Biden.

Biden sagði að aðrir frambjóðendur gætu haft betur í baráttunni við Trump en það yrði erfitt þar sem þeir þyrftu að byrja sína kosningabaráttu frá grunni. 

Margir innan raða Demókrataflokksins hafa kallað eftir því að Kamela Harris taki við keflinu af Biden. Hann sagði Harris vera mjög hæfa til að gegna forsetaembættinu og þess vegna hafi hann valið hana í varaforsetaembættið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert