Hakeem Jeffries fundaði með Biden í Hvíta húsinu

Hakeem fundaði með Biden í gærkvöldi.
Hakeem fundaði með Biden í gærkvöldi. AFP/Getty Images/Tierney L. Cross

Hakeem Jeffries, leiðtogi demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, fundaði í gærkvöldi í Hvíta húsinu með Joe Biden Bandaríkjaforseta.

Frá þessu greinir CNN.

„Þessi fundur átti sér stað í gærkvöldi. Í samtali mínu við Biden forseta lét ég í ljós alla þá breidd innsæis, innilegu sýn og ályktanir um þá leið sem fara skal miðað við það sem þingflokkurinn hefur greint frá að undanförnu,“ sagði Jeffries í bréfi til þingmanna demókrata í morgun, sem CNN hefur undir höndum. 

Ekki kemur fram hvort að hann hafi lýst yfir stuðningi við Biden eða hvort að hann hafi sagt Biden að þingflokkurinn stæði við bakið á honum. 

Brittany Pettersen, demókrati í fulltrúadeildinni, greindi frá því fyrir skömmu að hún skori nú á Biden að draga framboð sitt til baka. Á annan tug þingmanna demókrata í fulltrúadeildinni hafa stigið fram og hvatt Biden til að draga framboð sitt til baka.

Hefur lítið sagt

Jeffries hefur þótt nokkuð hljóðlátur hingað til í sambandi við stöðu Bidens og hefur hann fundað með þingmönnum sínum síðustu daga til að fara yfir stöðuna. Þá er bréfið sem vísað er í hér að ofan nokkuð loðið. 

Biden hélt blaðamannafund í gær og gerði nokkur mistök. Þrátt fyrir það þá segja sumir að hann hafi staðið sig nógu vel til þess að halda forsetabaráttu sinni gangandi áfram. Þó hefur honum ekki tekist að stöðva titringinn innan flokks. 

Flestir eru sammála um að hann hafi staðið sig betur heldur en í kappræðunum á móti Trump fyrir rúmlega tveimur vikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert