Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, og Nancy Pelosi, fyrrverandi forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, hafa rætt saman um Joe Biden og framtíð kosningabaráttu hans.
Bæði eiga þau að hafa lýst yfir áhyggjum af því hversu erfitt það virðist vera orðið fyrir Biden að sigra Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Þá eru þau ekki alveg viss um hvað þau eigi að gera í málinu.
CNN greinir frá en fréttamiðillinn ræddi við á annan tug þingmanna og starfsmanna í nánu sambandi við Obama og Pelosi.
Demókratar vilja binda enda á átökin innan flokks svo þeir geti aftur einblínt á að sigra Trump. Margir þingmenn eru sagðir hafa leitað til Obama eða Pelosi í þeirri von að þau ræði við Biden um framtíð hans.
Af þeim sem CNN ræddi við sögðu margir að ljóst væri að framboð Bidens væri á enda komið, þó það væri spurning hvenær það yrði tilkynnt og hvernig úr því myndi spilast.
Biden ítrekaði þó aftur á blaðamannafundi í gær að hann væri áfram í framboði.
Margir úr innsta hring Obamas þegar hann var forseti hafa skorað á Biden að draga framboð sitt til baka.
David Axelrod, helsti ráðgjafi Obama í báðum forsetaframboðum hans og þegar hann var í Hvíta húsinu, hefur opinberlega skorað á Biden að draga framboð sitt til baka.
Þá hafa þáttastjórnendur hlaðvarpsins Pod Save America hvatt Biden til að íhuga það alvarlega að stíga til hliðar, en þeir störfuðu einnig fyrir Obama.
Obama var fljótur að grípa til varna fyrir Biden eftir kappræðurnar við Trump en annars hefur ekkert heyrst í honum síðustu tvær viku.
Heimildarmenn CNN segja að Obama sé ekki að taka neina afstöðu í sambandi við Biden í þeim símtölum sem hann á við þingmenn og styrktaraðila Demókrata.
Politico greindi frá því að leikarinn George Clooney hafi heyrt í Obama áður en hann birti grein sína þar sem hann hvatti Biden til að hætta í framboði.
Obama á ekki að hafa hvatt Clooney til að birta skoðanagreinina, en ráðlagði þó ekki gegn því heldur, að sögn kunnugra.
Pelosi sagði í viðtali á miðvikudag að það væri undir Biden komið að taka ákvörðun um það hvort hann vildi halda áfram í framboði.
Biden hefur þó ítrekað sagt á síðustu dögum og vikum að hann ætli að halda áfram og því túlkuðu margir ummæli Pelosi sem beiðni um að hann endurskoðaði ákvörðun sína.
Fyrir þetta viðtal hjá Pelosi töldu margir að Biden væri að verða búinn að stöðva blæðinguna. En í kjölfar viðtalsins hafa margir stigið fram og hvatt Biden til að draga sig í hlé.
Alls hafa 18 Demókratar í báðum þingdeildum Bandaríkjaþings hvatt Biden til að draga framboð sitt til baka, þar af bættust við þrír eftir blaðamannafund Bidens í gærkvöldi.
Aðstoðarmaður Obama neitaði að tjá sig um fréttina er CNN hafði samband.
Þó að talsmaður Pelosi hafi ekki deilt um að hún og Obama hafi talað um Biden sagði talsmaðurinn við CNN eftir að greinin birtist:
„Það er enginn þingmaður sem myndi hafa vitneskju um neitt samtal sem Pelosi hefði átt við Obama. Sá sem segir að þeir geri það er ekki að segja sannleikann.“