Trump: „Vel gert, Joe!“

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti.
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti. AFP/Andrew Caballero-Reynolds

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, var fljótur að hæðast að mismælum mótfambjóðanda síns, Joe Bidens Bandaríkjaforseta, í kvöld. Biden vísaði til varaforseta síns sem Trumps.

Eins og greint var frá fyrir skömmu fór Banda­ríkja­for­seti nafna­villt í annað skiptið í kvöld þegar hann vísaði til Kamölu Harris vara­for­seta síns sem Trumps vara­for­seta.

„Ég hefði ekki valið Trump vara­for­seta ef ég tryði ekki að hún gæti unnið,“ sagði Biden, spurður hvort hann efaðist um hæfni Harris til að geta unnið Trump, ef hún tæki við af hon­um í kosn­inga­bar­átt­unni. 

Lít­ils­hátt­ar kliður fór í kjöl­farið um sal­inn, þar sem fjöldi blaðamanna var sam­an kom­inn.

Önnur mismælin sem vekja athygli

„Vel gert, Joe!“ skrifar Trump á miðilinn sinn Truth Social og birtir einnig myndskeið af atvikinu.

Eru þetta önnur mismæli forsetans sem hafa vakið athygli í kvöld.

Áður hafði Biden kynnt Volodimír Selenskí Úkraínu­for­seta upp á svið sem „Pútín for­seta“. Í því til­felli leiðrétti for­set­inn sig, eft­ir framíköll úr sal, en það gerði hann ekki að þessu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert