Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, var fljótur að hæðast að mismælum mótfambjóðanda síns, Joe Bidens Bandaríkjaforseta, í kvöld. Biden vísaði til varaforseta síns sem Trumps.
Eins og greint var frá fyrir skömmu fór Bandaríkjaforseti nafnavillt í annað skiptið í kvöld þegar hann vísaði til Kamölu Harris varaforseta síns sem Trumps varaforseta.
„Ég hefði ekki valið Trump varaforseta ef ég tryði ekki að hún gæti unnið,“ sagði Biden, spurður hvort hann efaðist um hæfni Harris til að geta unnið Trump, ef hún tæki við af honum í kosningabaráttunni.
Lítilsháttar kliður fór í kjölfarið um salinn, þar sem fjöldi blaðamanna var saman kominn.
„Vel gert, Joe!“ skrifar Trump á miðilinn sinn Truth Social og birtir einnig myndskeið af atvikinu.
Eru þetta önnur mismæli forsetans sem hafa vakið athygli í kvöld.
Áður hafði Biden kynnt Volodimír Selenskí Úkraínuforseta upp á svið sem „Pútín forseta“. Í því tilfelli leiðrétti forsetinn sig, eftir framíköll úr sal, en það gerði hann ekki að þessu sinni.