90 látnir og 300 særðir eftir árás Ísraelshers

Hamas-hryðjuverkasamtökin vísa yfirlýsingum Ísraelshers á bug.
Hamas-hryðjuverkasamtökin vísa yfirlýsingum Ísraelshers á bug. AFP

Ísraelsher drap um 90 manns í loftárás á Gasa í dag, að sögn heilbrigðisyfirvalda á Gasa. Herinn segir að ætlunin hafi verði að bana Mohammed Deif, sem er sagður vera heilinn á bak við árásina í Ísrael hinn 7. október. Hamas vísa því á bug og kalla árásina fjöldamorð.

Ísra­els­her gerði umfangsmikla árás á flótta­manna­búðir í suður­hluta Gasa í dag. Um 90 manns létust í árásinni og 300 til viðbótar særðust, samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum á Gasa sem eru undir stjórn Hamas.

Hafi falið sig meðal óbreyttra borg­ara

Stjórnvöld í Ísrael segja að Mohammed Deif og Rafa Salama, háttsettir leiðtogar hryðjuverkasamtakanna, hafi verið skotmörk árásarinnar. Voru þeir grunaðir um að fela sig meðal óbreyttra borgara.

Hamas-samtökin vísa fullyrðingum Ísraels á bug um að þar hafi verði hernaðarleg skotmörk.

Að sögn Ísraelshers höfðu Deif og Salama komið að skipulagningu hryðjuverkanna þann 7. október. Örlög Deif og Salama eru enn óljós og sagði Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, að ekki væri hægt að fullyrða hvort þeir séu látnir.

„Ekki hægt að réttlæta á neinn hátt“

Árásin hefur verið fordæmd af hjálparsamtökum og erlendum ríkisstjórnum þar sem Ísraelsher hafði áður skilgreint svæðið sem öruggt fyrir flóttamenn.

Á svæðinu voru allt að hundrað þúsund manns.

„Árás eins og þessi er ekki hægt að réttlæta á neinn hátt,“ sagði utanríkisráðherra Egyptalands.

38 þúsund látin

Samkvæmt heilbrigðisráðuneytinu á Gasa eru að minnsta kosti 38,443 látnir frá byrjun átakanna á milli Ísraelshers og Hamas-hryðjuverkamanna.

Áætlað er að um 88,481 manns til viðbótar hafi særst.

Í yfirlýsingu frá Hamas er því vísað á bug að ætlun árásarinnar hafi verið að bana Deif og Salama. Hryðjuverkasamtökin segja að yfirlýsingu Ísraelsher vera til þess að „fela umfangið á þessu hræðilega fjöldamorði“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert