Árásarmaðurinn nafngreindur

Fundargestur lést í árásinni.
Fundargestur lést í árásinni. AFP

Bandaríska alríkislögreglan hefur nafngreint manninn sem gerði skotárás á kosningafundi Donald Trumps í Penn­sylv­an­íuríki. 

Hann heitir Thomas Matthew Crooks og var 20 ára gamall frá Bethel Park í Penn­sylv­an­íu. Samkvæmt miðlum vestanhafs var hann vopnaður AR-15 hálfsjálfvirkum riffli. 

Að sögn leyniþjónustunnar skaut Crooks nokkrum skotum að sviðinu þar sem Trump stóð áður en hann var „tekinn úr umferð“ af fulltrúum öryggisþjónustunni.  

Crooks og einn gestur á fundinum létust í árásinni. Tveir eru alvarlega særðir. 

Tvö vitni segjast hafa séð látinn mann með skotsár á höfði. 

Stuðningsmenn Trumps eftir skotárásina.
Stuðningsmenn Trumps eftir skotárásina. AFP

Fjöldi fólks sá Crooks

Fjöldi vitna segjast hafa séð Crooks áður en hann hleypti af skotum og látið yfirvöld vita. 

Ryan Knight, stuðningsmaður Trumps, sagðist hafa séð Crooks á byggingu nærri fundinum.

„Þegar ég sat á fundinum sagði maður: „Ó guð, hann var með byssu,“ sagði Knight við blaðamenn. 

Lögregla á svæðinu greindi frá því að hún hefði brugðist við „fjölda tilkynninga um grunsamlegt athæfi“, en gaf ekki nánari skýringu. 

Fulltrúar leyniþjónustunnar umkringdu Trump um leið og skot heyrðust.
Fulltrúar leyniþjónustunnar umkringdu Trump um leið og skot heyrðust. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert