Biden ávarpaði bandarísku þjóðina

Joe Biden á blaðamannafundinum í vikunni.
Joe Biden á blaðamannafundinum í vikunni. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti ávarpaði þjóð sína fyrir skömmu. Hann ræddi þar skotrárásina á kosningafundi Donalds Trumps, mótframbjóðanda síns, í Butler í Pennsylvaníu í gær.

Rannsakað sem banatilræði

Yfirvöld rannsaka árásina sem banatilræði við Trump, sem er fyrrverandi forseti Bandaríkjanna.

Einn lést í árásinni auk þess sem að árásarmaðurinn var felldur. Tveir eru alvarlega særðir.

Byssukúla fór í efri hluta eyra Trumps en forsetaframbjóðandinn hefur sagst vera heill á húfi. Hvíta húsið sagði í gær að Biden og Trump hefðu rætt saman í kjölfar árásarinnar.

Biden ætlaði að fara til Texas á morgun en hefur nú frestað ferðinni vegna árásarinnar.

Biden í erfiðri stöðu

Biden og kosningateymi hans eru þá einnig í erfiðri stöðu.

Síðustu vikur hafa þau reynt að skapa samstöðu í kringum forsetaframboð Bidens, en það hefur gengið brösuglega. Fjöldi þingmanna úr röðum Demókrata hefur krafist þess að Biden víki úr framboði.

Nú horfir kosningateymið upp á viðkvæma stöðu eftir að maður reyndi að ráða mótframbjóðanda Bidens af dögum.

Landsfundur Repúblikana hefst á morgun og búast má við að þungum orðum verði beint að Demókrötum, enda hafa sumir Repúblikanar haldið því fram að orðræða Bidens um Trump hafi hvatt árásarmanninn til þess að fremja ódæðið.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert