Á heimleið eftir 400 ár

Elsta örugga heimild um notkun innsiglis Kerteminde á Fjóni við …
Elsta örugga heimild um notkun innsiglis Kerteminde á Fjóni við innsiglun bréfs er frá árinu 1608. Innsiglið fór á flakk í 400 ár og dúkkaði upp í Barcelona – hvernig á því stóð verður líklega aldrei ljóst. Ljósmynd/Østfyns Museer

Bæjarinnsigli hafnarbæjarins Kerteminde á dönsku eyjunni Fjóni er á heimleið eftir að hafa verið týnt og tröllum gefið í ein 400 ár.

Kerteminde á sér merka sögu sem rekja má allt aftur til 14. aldar þegar þéttbýli tekur að myndast þar við sjóinn á Norðaustur-Fjóni en bærinn var hafnargátt nágrannabæjarins Óðinsvéa og öðlaðist réttindi til að kallast bær árið 1413. Í Kerteminde fæddist listmálarinn Ernst Syberg árið 1906, einn hinna svonefndu Odsherred-málara sem stofnuðu eins konar listamannanýlendu í Odsherred á Norðvestur-Sjálandi á fjórða áratug síðustu aldar.

Það var Mette Ladegaard Thøgersen, safnstjóri Østfyns Museer, minjasafna í Nyborg og Kerteminde, sem fékk ábendingu um páskana um að innsiglið, það er eins konar stimpill til að loka með vaxi bréflegum erindum bæjaryfirvalda og tryggja falsleysi þeirra, væri á leið á listmunauppboð í spænsku borginni Barcelona.

Bærinn Kerteminde á Fjóni var þýðingarmikil hafnarborg Óðinsvéa á miðöldum …
Bærinn Kerteminde á Fjóni var þýðingarmikil hafnarborg Óðinsvéa á miðöldum en þar búa á sjöunda þúsund manns nú um stundir. Ljósmynd/Wikipedia.org/Pandadk

Góð ráð dýr

Innsiglið er frá ofanverðri 16. öld, sjö sinnum fjórir sentimetrar að málum og sýnir mynd þess þrímastra kaupskip á úfnum sjó. Áletrunin er Sigillum Civitatis Carthamundensis. Elstar heimildir um notkun innsiglisins á bréfsefni bæjarins eru frá árinu 1608 en ekki er vitað með vissu hvenær það hvarf á braut.

Aftur að uppboðinu í Barcelona. Nú voru góð ráð dýr. Leiðbeinandi verð innsiglisins var 11.000 evrur, jafnvirði rúmlega 1,6 milljóna íslenskra króna, og þá upphæð var ekki að finna í fjárhirslum bæjarins litla sem telur á sjöunda þúsund íbúa – eða að minnsta kosti ekki þannig að hún væri eyrnamerkt því verkefni að kaupa innsiglið á uppboði suður í álfu.

Hana var hins vegar að finna í hirslum Andersen-fjölskyldunnar, eiganda Fayard-slippsins í bænum, sem skuldbatt sig þegar til að reiða fram matsverðið sem reyndist einmitt vera slegið uppboðsverð þegar hamarinn féll í kjölfar boðs Østfyns Museer. Eftir töluvert ferðalag með viðkomu í London er innsiglið nú komið til Kerteminde.

Táknmynd gullaldar bæjarins

„Taugar okkar voru teknar að titra. Sendingartíminn varð mjög langur af einhverjum ástæðum,“ segir Thøgersen safnstjóri við danska ríkisútvarpið DR, en hún setti upp hvíta silkihanska áður en hún tók innsiglið úr umbúðum sínum í gamla heimabænum, um 400 árum eftir að það hvarf þaðan.

Ólíklegt er að innsigli Kerteminde hverfi á 21. öldinni. Það …
Ólíklegt er að innsigli Kerteminde hverfi á 21. öldinni. Það er nú safngripur í bænum undir vökulu auga öryggismyndavélar. Ljósmynd/Østfyns Museer

„Þýðing innsiglisins fyrir sögu Kerteminde er augljós,“ heldur safnstjórinn áfram, „það er táknmynd gullaldar bæjarins, skip hefur verið að finna í merki hans allt þar til sveitarfélögin voru stokkuð upp árið 2007.“

Innsiglið er nú til sýnis fyrir bæjarbúa og gesti bæjarins á Farvergården-bæjarsafninu þar sem þess er vendilega gætt.

Hvernig á því stóð að þungavigtargripur úr sögu Kerteminde á Fjóni lagði upp í langferð sem lá um Barcelona á Spáni og heim í Danaveldi á ný fáum við líkast til aldrei að vita.

DR
TV2 Fyn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert