Byssuskot forsenda athygli

„Þetta er nánast eins og einhver kirkjulist þar sem hægt …
„Þetta er nánast eins og einhver kirkjulist þar sem hægt er að haka við öll boxin í táknum, myndmáli og myndlíkingum,“ segir Stefán Pálsson sagnfræðingur sem segir fréttamyndir af blóðugum Trump með hnefann á lofti eins og málverk í anda rómantísku stefnunnar. AFP

„Maður hrekkur auðvitað við þegar svona fréttir berast, það voru stórir minningapunktar í æsku manns og uppeldi þegar Olof Palme [forsætisráðherra Svíþjóðar] og [indverski forsætisráðherrann] Indira Gandhi voru drepin,“ segir Stefán Pálsson sagnfræðingur í samtali við Morgunblaðið sem falaðist eftir hugleiðingum hans um pólitísk tilræði í kjölfar atlögu að Donald Trump um helgina.

Stefán segir það umhugsunarvert að í landi á borð við Bandaríkin, þar sem skotvopnaeign sé svo almenn sem raun ber vitni, séu slík tilræði í raun fátíð – ekki síst þau sem heppnast. „Þetta er í raun furðufágætt og geta liðið mörg ár á milli og segir í raun sitt að tilræðismaðurinn er skotinn einhverjum sekúndum síðar og samt er kvartað yfir seinum viðbrögðum,“ heldur Stefán áfram.

Fylgisaukning ekkert lögmál

Sagan sýni okkur að pólitísk banatilræði geti haft djúpstæð áhrif, „einkum þegar þau gerast fyrir framan myndavélar. Ef maður fer yfir allan listann um allt sem lögregla hefur flett ofan af án þess að nokkuð hafi gerst, þá hafa menn verið að leggja á ráðin um tilræði við nánast alla Bandaríkjaforseta, einhver er tekinn með sprengju innanklæða og svo framvegis,“ segir sagnfræðingurinn. Slíkt risti hins vegar ekki djúpt.

„Tilræði fanga ekki athygli fólks nema skotum sé hleypt af eða dramatískar myndir skildar eftir,“ segir Stefán og rifjar upp tilræði við Ronald Reagan þáverandi Bandaríkjaforseta fyrir framan Hilton-hótelið í Washington 30. mars 1981.

„Það var fyrir framan myndatökuvélar og skammtímaáhrifin af því voru að Reagan rauk upp í vinsældum,“ heldur hann áfram, en slær varnagla: „Það er þó ekkert lögmál. Nú er ekki langt síðan slóvakíski forsætisráðherrann var skotinn ítrekað og maður sér að hans flokkur hefur þokast lítillega upp í skoðanakönnunum, en það er ekkert sjálfgefið að einhver samúðarbylgja myndist og fólk telji sig skuldbundið til að beina atkvæði sínu á ákveðinn stað þótt mönnum sé sýnt banatilræði.“

Stefán Pálsson sagnfræðingur fór yfir pólitísk tilræði og áhrif þeirra …
Stefán Pálsson sagnfræðingur fór yfir pólitísk tilræði og áhrif þeirra í samtali við Morgunblaðið. Ljósmynd/mbl.is

Skammaður fyrir hatursorðræðu

Stefán ítrekar styrk myndefnis í tengslum við banatilræði. „Þessar myndir [af Trump] verða sýndar fram og til baka og þær kunna að hafa áhrif á kosningabaráttuna, á hvaða nótum umræðan verður og hvaða málefni eru tekin. Trump er skammaður fyrir hatursorðræðu sem geti haft alvarlegar afleiðingar en nú er hann kannski kominn í þá stöðu að geta spilað sig fórnarlamb í slíku,“ hugleiðir Stefán.

Mynd af blóðugum frambjóðanda með hnefann á lofti minni einna helst á málverk í anda rómantísku stefnunnar. „Þetta er nánast eins og einhver kirkjulist þar sem hægt er að haka við öll boxin í táknum, myndmáli og myndlíkingum,“ segir Stefán og rifjar í framhaldinu upp atvik í Brighton árið 1984 sem varð breska forsætisráðherranum Margaret Thatcher að vissu leyti lyftistöng.

Breski forsætisráðherrann Margaret Thatcher fagnar á samkomu Íhaldsflokksins haustið 1989. …
Breski forsætisráðherrann Margaret Thatcher fagnar á samkomu Íhaldsflokksins haustið 1989. Sprengjutilræði IRA í Brighton fimm árum áður varð henni og ímynd hennar lyftistöng. AFP/Johnny Eggitt

„IRA [Írski lýðveldisherinn] sprengdi þá upp hótel í aðdraganda landsfundar Íhaldsflokksins sem varð í rauninni til að styrkja þessa hörkutólsímynd sem hún var dálítið að reyna að draga upp af sér. Þannig að við sjáum að dæmi eru til um þetta. Svona lagað er hins vegar mun sjaldgæfara nú en áður var, sérstaklega á Vesturlöndum, og verður kannski meira sjokk fyrir vikið,“ segir Stefán og lítur til stjórnmálasögu Evrópu á öndverðri 20. öldinni.

„Þá voru menn skjótandi niður forsætisráðherra og kóngafólk upp á hvert ár, þannig að eitthvað eru þessar leyniþjónustur í dag að gera til að vinna fyrir kaupinu sínu,“ segir Stefán Pálsson sagnfræðingur að lokum um pólitísk tilræði í sögunni og áhrif þeirra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert