Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti og núverandi forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, sagði í viðtali við New York Post að hann ætti að vera dáinn.
Trump fór yfir banatilræðið, sem átti sér stað á laugardaginn, með blaðamönnum miðilsins, er hann var í flugvél á leið sinni til Milwaukee þar sem flokksþing Repúblikanaflokksins hefst í dag.
„Læknirinn á spítalanum sagðist aldrei hafa séð neitt þessu líkt, hann kallaði þetta kraftaverk,“ sagði Trump.
„Ég á ekki að vera hér, ég ætti að vera dáinn,“ sagði hann. „ Ég ætti að vera dáinn.“
Trump sagði í viðtalinu að ef hann hefði snúið höfði sínu örlítið til hægri til að lesa töflu um ólöglega innflytjendur, þegar morðinginn tók í gikkinn, hefði skotið orðið honum að bana.
Hann sagði að þegar fulltrúar bandarísku öryggisþjónustunnar hafi leitt hann af sviðinu hafi hann samt viljað halda áfram ræðu sinni en þeir hefðu sagt honum að það væri ekki öruggt og þeir yrðu að koma honum á sjúkrahús.
Hann hrósaði öryggisþjónustunni og sagði að þeir hafi verið svo snöggir að skella honum í jörðina að skórnir hans hafi dottið af honum.
Hann hrósaði einnig starfsmönnum öryggisgæslunnar fyrir að hafa skotið skyttuna sem var staðsett á þaki í um 120 metra fjarlægð frá sviðinu þar sem Trump hélt ræðu.
„Þeir drápu hann með einu skoti beint á milli augnanna,“ sagði hann. „Þeir stóðu sig frábærlega,“ bætti hann við. „Þetta er óraunverulegt fyrir okkur öll.“