Fundu 15 kg af kókaíni í bifreið

Kókaínpakkningarnar sem finnska tollgæslan uppgötvaði í leyndu hólfi í bifreið …
Kókaínpakkningarnar sem finnska tollgæslan uppgötvaði í leyndu hólfi í bifreið sem rúmenskur ökumaður flutti með ferju frá Svíþjóð yfir til Finnlands í júní. Ljósmynd/Finnska tollgæslan

Finnska tollgæslan lagði í júní hald á fimmtán kílógrömm af kókaíni í bifreið sem kom með ferju frá Svíþjóð til finnska bæjarins Naantali, skammt vestur af Turku í suðvesturhluta landsins.

Að sögn Kimmo Kaunisto, deildarstjóra rannsóknardeildar finnsku tollgæslunnar, er um eitt mesta magn kókaíns að ræða sem fundist hefur í einu lagi á Turku-svæðinu og má til samanburðar hafa að heildarhaldlagning efnisins hjá tollgæslu allt árið 2023 var sextán kíló.

Falið í bifreiðinni utan Norðurlanda

Ökumaður bifreiðarinnar er rúmenskur ríkisborgari með lögheimili í Danmörku og reyndist efnið vandlega falið í hólfi í burðarvirki bifreiðarinnar og telja rannsakendur tollsins að kókaíninu hafi verið komið fyrir í ökutækinu í Evrópuríki utan Norðurlandanna áður en för þess hófst.

Við húsleit danskrar lögreglu á heimili ökumannsins fannst lítilræði af kókaíni auk nokkurra falsaðra skilríkja. Er verðmæti efnisins á götumarkaði, sem finnska tollgæslan telur nema 150.000 neysluskömmtum, metið 2,25 milljónir evra, jafnvirði tæpra 336 milljóna íslenskra króna.

Að lokinni rannsókn málsins gengur það áfram til saksóknara sem annast útgáfu ákæru og saksókn fyrir finnskum dómstól.

Helsinki Times

YLE

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert