Gæti tilkynnt varaforsetaefnið á hverri stundu

Efst á myndinni er Trump, til vinstri er Doug Burgum, …
Efst á myndinni er Trump, til vinstri er Doug Burgum, fyrir miðju er J.D. Vance og til hægri er Marco Rubio. AFP/Michael M. Santiago/Andrew Harnik/Giorgio Viera

Landsfundur Repúblikana hefst í dag og höfðu margir gert ráð fyrir því að varaforsetaefni Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, yrði kynnt samdægurs.

Óljóst er hvort að banatilræðið, sem Trump var sýnt á laugardag, muni hafa áhrif á það.

Fyrir banatilræðið gegn Donald Trump, þar sem hann var skotinn í eyrað, einn var skotinn til bana og tveir aðrir særðust, hafði kosningateymi Trumps miðað við að tilkynna varaforsetaefnið í dag eða jafnvel fyrir daginn í dag.

Vegna reglubreytinga þá getur Trump tilkynnt varaforsetaefnið sitt í síðasta lagi á miðvikudag, daginn sem varaforsetaefnið heldur ræðu sína á landsfundinum.

J.D. Vance, öldungadeildarþingmaður frá Ohio.
J.D. Vance, öldungadeildarþingmaður frá Ohio. AFP/Getty Images/Andrew Harnik

Trump var búinn að ákveða sig

Valið er talið standa á milli Doug Burgum, rík­is­stjóra Norður-Dakóta, J.D. Vance, öld­unga­deild­arþing­manns frá Ohio, og Marco Rubio, öld­unga­deild­arþing­manns frá Flórída.

Þá koma aðrir til greina eins og til dæmis Tim Scott, öldungadeildarþingmaður frá Suður-Karólínu, og Glenn Youngkin, ríkisstjóri Virgínu.

Trump sagði nýlega, fyrir skotárásina, að í hans huga þá væri hann búinn að ákveða hver yrði fyrir valinu. Óljóst er hvort skotárásin hafi einhverju breytt fyrir hann í þessum efnum. 

Hann hefur þó haldið spilunum þétt að sér þar sem engu hefur verið lekið um það hver nákvæmlega verður fyrir valinu. Þá hafa fyrrnefndir menn ítrekað sagt í viðtölum á dögunum að Trump sé ekki búinn að segja þeim hvort þeir hafi orðið fyrir valinu.

Burgum líklegastur í veðbönkum

Kosningateymi Trumps hefur áður sagt að aðalatriðið sé að velja varaforsetaefni sem sé sterkur leiðtogi, geti verið öflugur varaforseti í fjögur ár og svo leitt flokkinn í Hvíta húsið aftur eftir að kjörtímabili Trumps lýkur – ef hann sigrar.

Ef veðbankar eins og Polymarket eru skoðaðir þá eru tveir menn sem eru taldir líklegastir til þess að verða fyrir valinu. Doug Burgum er með 51% líkur á því að verða fyrir valinu á sama tíma og J.D. Vance er með 33% líkur.

Þá er Marco Rubio með 13% líkur og allir aðrir með undir 5%.

Miðað við færslur Donalds Trumps Jr., sonar Donalds Trumps, á samfélagsmiðlum þá vill sá yngri að pabbi sinn velji J.D. Vance.

Doug Burgum, ríkisstjóri Norður-Dakóta.
Doug Burgum, ríkisstjóri Norður-Dakóta. AFP/Getty Images/ Michael M. Santiago

Miðvikudagur líklegasti dagurinn

Álitsgjafar sem ræddu við dagblaðið New York Post á dögunum sögðu líklegast að Trump myndi tilkynna varaforsetaefnið sitt á miðvikudag.

„Þótt Trump geti tilkynnt um val sitt hvenær sem hann vill, virðist sem þriðji dagur fundarins sé sá dagur [sem] myndi hámarka áhuga og áhorf,“ sagði Dennis Lennox, kosningaráðgjafi hjá Repúblikönum, í samtali við dagblaðið.

Annar kosningaráðgjafi sem dagblaðið ræddi við tók undir með Lennox. 

„Miðvikudagskvöldið,“ sagði kosningaráðgjafinn, sem er ónafngreindur, spurður hvaða dag Trump myndi velja til að tilkynna varaforsetaefnið. 

„Þeir voru að breyta reglunum svo hann geti tilnefnt eins seint og mögulegt er,“ sagði hann. 

CNN
New York Post
Polymarket

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert