Gengi bréfa Truth Social hækkaði um 35%

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna og eigandi Truth Social.
Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna og eigandi Truth Social. AFP/Andrew Caballero-Reynolds

Gengi bréfa í fyrirtækinu Trump Media and Technology Group hækkaði um rúmlega 35% við opnun kauphalla í morgun. Bréfin eru nú um fimm milljarðara dala virði, sem nemur um 680 milljörðum íslenskra króna. Fyrirtækið rekur miðilinn Truth Social, og er í eigu Donalds Trumps, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. 

Greinendur sem breska ríkisútvarpið ræddi við virðast sammála um það að gengi bréfa í félaginu haldist í hendur við sigurlíkur Trumps á forsetastól, og virðast því líta svo á að banatilræðið gegn Trump, nú um helgina, hafi aukið sigurlíkur hans í kosningunum í haust.  

Stofnaður árið 2021

Miðillinn var stofnaður af Trump árið 2021 eftir ósigur hans í forsetakosningunum árið 2020, en í kjölfar þeirra var hann gerður brottrækur af samfélagsmiðlum á borð við Facebook og Twitter. Truth Social svipar einmitt mikið til samfélagsmiðilsins Twitter, þar sem Trump hafði um 88 milljónir fylgjenda, en rúmlega tvær milljónir manna nota nú Truth Social daglega.

Gengi bréfa í félaginu hafa fallið nokkuð í ár, til dæmis þegar réttað var yfir Trump fyrr á árinu vegna þagnargreiðslna hans til Stormy Daniels, en félagið hækkaði töluvert í virði á ný eftir að ljóst varð að Trump yrði forsetaefni Repúblikanaflokksins í komandi kosningum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka