Giftu sig rétt fyrir harmleik

Oliver Ravn Rønning heitinn var 22 ára gamall þegar hann …
Oliver Ravn Rønning heitinn var 22 ára gamall þegar hann mætti örlögum sínum í Porsgrunn í Noregi í nóvember í fyrra. Ljósmynd/Úr einkasafni

Nítján ára gömul kona hlaut í morgun fimmtán ára fangelsisdóm í Héraðsdómi Telemark í Noregi fyrir að bana eiginmanni sínum með að minnsta kosti sjö höggum með hafnaboltakylfu aðfaranótt 27. nóvember í fyrra í bænum Porsgrunn í Telemark-fylki í Suðaustur-Noregi.

Auk dómsins, sem felldur er undir réttarúrræðinu forvaring, þannig að framlengja megi fangelsisdvöl sakbornings svo lengi sem honum er ekki talið treystandi til lausagöngu, var dómfelldu gert að greiða aðstandendum fórnarlambs síns rúmlega 900.000 norskar krónur í miskabætur, upphæð sem svarar til 11,5 milljóna íslenskra króna.

Eiginmaðurinn, Oliver Ravn Rønning heitinn, var 22 ára gamall nemandi í listaskóla í Kragerø, fæddur í kvenlíkama en sannfærður um karlkyn sitt og tók sér því karlmannsnafn. Dæmda er transkona og kynntust þau Rønning á stefnumótasíðu hinsegin fólks í fyrrasumar.

Stormasamt frá upphafi

Á meðan allt lék í lyndi flutti transkonan, sem í morgun hlaut dóm, inn til Rønnings og giftu þau sig sömu vikuna í nóvember og konan myrti maka sinn með að minnsta kosti sjö kylfuhöggum sem sérfróðir rannsakendur töldu þó vel geta hafa verið tíu til tólf.

Var sambandið stormasamt frá upphafi eftir því sem fram kom við aðalmeðferð málsins og hafði dæmda töglin og hagldirnar í sambandinu andlega séð, þar hafði hún fast tak á maka sínum eftir því sem fram kom í skýrslu geðlæknis og sálfræðings sem lögðu mat á geðheilbrigði hennar við málsmeðferðina.

Var niðurstaða sérfræðinganna að transkonan væri haldin andfélagslegri persónuleikaröskun auk þess sem hún bæri sterk einkenni siðblindu (n. psykopati) sem hefði í för með sér umtalsverða hættu á frekari ofbeldisverkum í framtíðinni.

Systkinin Andy og Ashley

Lifði parið sig inn í hlutverk systkinanna Andy og Ashley Graves í tölvuleiknum The Coffin of Andy and Leyley þar sem leikmaðurinn eða notandinn er í hlutverki systkinanna sem neyðast til að fremja hrottafengnustu voðaverk til að lifa af í uppskáldaðri skuggaveröld. Sem dæmi má nefna að systkinin eiga í kynferðislegu sambandi auk þess sem þau átu foreldra sína. Þarf leikmaður, eftir því sem fram vindur, að taka krefjandi ákvarðanir sem ekki væru á allra færi í raunheimum.

Gekk innlifun Rønnings og maka hans svo langt að þau reyndu að breyta eftirnöfnum sínum í Graves en á það gat norsk stjórnsýsla ekki fallist.

Af þessu spratt hjónabandið en dæmda taldi sig vita að bandarískir ættingjar Rønnings hétu Graves að eftirnafni. Lagði hún því á ráðin um hjónabandið í þeirri von að þau gætu gift sig með Graves sem löglegt eftirnafn í krafti ættartengslanna vestanhafs og kvaðst hún fyrir dómi svo hafa ætlað sér að sækja um skilnað um leið og nafnbreytingin væri í höfn.

Svo langt í ferlinu komst hún þó aldrei þar sem hún myrti Rønning fáeinum dögum eftir brúðkaupið.

Móðirin ók frá Arendal

Var kvöldið örlagaríka með þeim hætti að þau hjónin lentu í slagsmálum á heimili sínu og leitaði Rønning á læknavakt í Porsgrunn. Þar tjáði hann hjúkrunarfólki að hann kenndi sér einskis meins en væri logandi hræddur við eiginkonu sína.

Hafði starfsfólk læknavaktarinnar samband við lögreglu og hjálparmiðstöð en lendingin í málinu varð þó að móðir Rønnings ók frá Arendal til Porsgrunn til að sækja son sinn og taka hann með sér heim. Sætti lögregla harðri gagnrýni fyrir þau málalok síðar í ferlinu.

Þurfti Rønning að koma við á heimili þeirra dæmdu til að sækja þar farsíma sinn og tölvu – sú ákvörðun reyndist hans banabiti.

Á meðan móðirin beið í bifreiðinni fyrir utan barst henni skerandi öskur til eyrna og í framhaldinu horfði hún á son sinn myrtan gegnum stofugluggann. Kallaði hún lögreglu til sem handtók eiginkonuna sem á þessum tíma var 18 ára gömul.

Féllst ekki á nauðvörn

Fyrir rétti bar ákærða því við að um neyðarvörn gegn Rønning hefði verið að ræða en héraðsdómari taldi engin skilyrði þess úrræðis hafa verið uppfyllt og dæmdi hana til fimmtán ára fangelsisvistar – sem framlengja má eftir því sem þurfa þykir í krafti forvaring-úrræðisins.

Heidi Ysen verjandi eiginkonunnar segir í samtali við norska ríkisútvarpið NRK að skjólstæðingi hennar falli dómurinn ákaflega þungt. Haldi hún fast við þann framburð sinn að um nauðvörn hafi verið að ræða og muni hún áfrýja til lögmannsréttar.

NRK
NRKII (harmleiknum hefði mátt afstýra)
NRKIII (umfjöllun við upphaf aðalmeðferðar)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert