Lögregluþjónn hafði afskipti af árásarmanninum í bænum Butler aðeins örfáum sekúndum áður en hann reyndi að ráða Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta til bana, samkvæmt heimildum AP.
Hinn tvítugi Thomas Matthew Crooks skaut að Donald Trump á kosningafundi hans í ríkinu Pennsylvaníu í fyrradag, að sögn alríkislögreglu Bandaríkjanna, FBI. Trump særðist og einn lést í árásinni auk þess sem árásarmaðurinn var felldur. Tveir fundargerstir særðust alvarlega.
Skömmu áður en skothvellirnir heyrðust tóku fundargestir eftir manni klifra upp á þak í nágrenni við kosningafundinn, að sögn tveggja lögreglumanna sem AP ræddi við.
Einn lögreglumaður mun hafa klifrað upp á þakið og rekist á Crooks, sem síðan beindi hríðskotariffli sínum í átt að lögreglumanninum, að sögn AP.
Lögregluþjónninn hörfaði þá niður stigann en einmitt þá skaut Crooks í átt að Trump, að sögn lögreglumannanna sem óskuðu eftir nafnleynd.
Síðan var árásarmaðurinn felldur af skyttu bandarísku öryggisþjónustunnar en þá hafði hann þegar myrt einn fundargest, hinn 50 ára Corey Comperatore sem var slökkviliðsmaður og lætur eftir sig tvö börn.
Sömu lögreglumenn segja einnig að sprengiefni hafi fundist í bíl Crooks og á heimili hans, en fleiri fjölmiðlar hafa þegar greint frá því.
Rannsóknarlögreglumenn telja að hríðskotariffillinn sé í eigu föður Crooks, keyptur fyrir að minnsta kosti hálfu ári.
Samkvæmt fjölmiðlaumfjöllun vestanhafs er enn óljóst hvers vegna Crooks framdi ódæðið.
Hann var skráður sem kjósandi Repúblikanaflokksins en samkvæmt opinberum gögnum gaf Crooks samtökum sem styðja Demókrataflokkinn 15 dollara, eða um tvö þúsund krónur, í janúar árið 2021.