J.D. Vance, öldungadeildarþingmaður frá Ohio-ríki, verður varaforsetaefni Donalds Trumps, forsetaframbjóðanda Repúblikanaflokksins, í komandi forsetakosningum vestanhafs í nóvember.
Þetta tilkynnti Donald Trump fyrir skömmu en landsfundur repúblikana hófst í dag og stendur yfir fram á fimmtudag.
J.D. Vance er 39 ára öldungadeildarþingmaður frá Ohio-ríki en hann var kjörinn árið 2022. Hann varð hins vegar frægur árið 2016 fyrir ævisögu sína, Hillbilly Elegy.
Seinna meir var kvikmynd gerð byggð á bókinni og geta Íslendingar með Netflix horft á hana.
J.D. Vance hefur verið mikill stuðningsmaður Trumps síðan hann bauð sig fram og hefur Trump stutt hann. Málflutningur Vance er mjög í takt við málflutning Trumps en fyrst þegar Vance komst í sviðsljósið eftir útgáfu bókar sinnar árið 2016 var hann gagnrýninn á Trump.
Miðað við færslur Donalds Trumps Jr., sonar Donalds Trumps, á samfélagsmiðlum þá var ljóst að sá yngri vildi að pabbi sinn veldi J.D. Vance.