Lést við að skýla fjölskyldunni fyrir byssukúlum

Comperatore ásamt dóttur sinni Allyson.
Comperatore ásamt dóttur sinni Allyson. Ljósmynd/LinkedIn

Corey Comperatore, fimmtugur maður sem var myrtur af árásarmanni sem reyndi að bana Donald Trump, lést við að skýla eiginkonu sinni og dóttur fyrir byssukúlum.

Fjölskyldan lýsir honum sem hetju.

CNN greinir frá.

Í skotárásinni í Butler í Pennsylvaníu var Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, skotinn í eyrað, tveir aðrir særðust og Comperatore lést eftir hafa verið skotinn í höfuðið.

Josh Shapiro ríkisstjóri Pennsylvaníu hefur rætt við ekkju Comperatores og í ávarpi til fjölmiðla í gær lýsti hann honum sem trúræknum manni sem elskaði ekkert meira en fjölskylduna sína. 

„Corey dó sem hetja“

Shapiro sagði að Comperatore hefði verið mikill stuðningsmaður Trumps og verið spenntur fyrir því að fá að mæta á kosningafund hjá honum.

„Ég spurði konu Coreys hvort mér væri óhætt að segja ykkur frá því að við töluðum saman. Hún sagði „já“. Hún bað mig líka að segja ykkur frá því að Corey dó sem hetja,“ sagði Shapiro.

Comperatore skilur eftir sig eiginkonu og tvær dætur. Hann var á fundinum ásamt eiginkonu sinni og einni dóttur.

„Corey myndaði skjöld fyrir fjölskyldu sína til að vernda hana í gærkvöldi á þessum fundi,“ sagði Shapiro.

„Corey var stelpupabbi. Corey var slökkviliðsmaður. Corey fór í kirkju á hverjum sunnudegi. Corey elskaði samfélagið sitt. Sérstaklega elskaði Corey fjölskylduna sína,“ sagði Shapiro.

Mun sækja jarðarför Comperatores

Fjáröflun á GoFundMe fyrir fórnarlömb skotárásarinnar hefur verið hleypt af stokkunum af kosningateymi Donalds Trumps og þegar hefur yfir hálfur milljarður króna safnast.

Joe Biden og Donald Trump hafa vottað fjölskyldu Comperatores samúð sína og greindi Trump frá því í viðtali við dagblaðið New York Post að hann myndi mæta í jarðarför hans.

„Hann var faðir,“ sagði Joe Biden Bandaríkjaforseti í ávarpi til þjóðarinnar í gær um Comperatore.

„Hann var að vernda fjöl­skyldu sína fyrir skot­un­um sem var hleypt af.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert