Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, segir að í kjölfar banatilræðisins á laugardag hafi hann ákveðið að henda ræðu sinni fyrir landsfund Repúblikana í ruslið. Með nýrri ræðu muni hann reyna að sameina þjóðina.
Fjögurra daga landsfundur Repúblikana hefst í dag og bendir margt til að flokkurinn muni reyna að sameinast í kjölfar skotárásar þar sem Trump var skotinn í eyrað, einn lést og tveir aðrir særðust.
Í viðtali við dagblaðið New York Post sem birtist í morgun segir Trump að snertingin við dauðann hafi fengið hann til að breyta ræðu sinni sem hann á að flytja á fimmtudaginn.
„Ég hafði undirbúið mjög harða ræðu – mjög góða – um spilltu, hræðilegu ríkisstjórnina,“ segir hann.
„En ég henti henni.“
Kveðst hann vera að smíða nýja ræðu vegna þess að „ég vil sameina þjóðina okkar. En ég veit ekki hvort að það sé hægt, fólk er mjög sundrað.“
Í gær var Nikki Haley, mótframbjóðanda Trumps í forvali flokksins, boðið að taka til máls á landsfundinum.
Fyrir skotárásina þá hafði henni ekki verið boðið og af breytingunum að dæma má gera ráð fyrir því að Repúblikanar muni reyna að höfða til breiðari hóps kjósenda.
Í síðustu viku var Ron DeSantis, ríkisstjóra Flórída, einnig boðið að taka til máls á landsfundinum en hann bauð sig fram gegn Trump í forvalinu.