Mikil ringulreið myndaðist á úrslitaleik Ameríkubikars karla í knattspyrnu milli Kólumbíu og Argentínu í Miami í nótt. Þúsundir stuðningsmanna reyndu að komast inn á leikvöllinn, án þess að eiga miða.
Mikill troðningur myndaðist fyrir framan inngang vallarins áður en hundruð aðdáenda þvinguðu sér leið í gegnum öryggishliðin. Til að koma í veg fyrir hættulegan troðning opnuðu skipuleggjendur öll hlið og frestuðu leiknum um rúmlega klukkutíma.
Meira en tugur fólks var handtekinn og margir þurftu á læknisaðstoð að halda.
Óeirðirnar hófust klukkustundum fyrir áætlaðan leiktíma þegar aðdáendur urðu pirraðir vegna tafar af völdum aukinnar öryggisgæslu í miklum hita. Sumir gestir, þar á meðal börn, fundu til óþæginda þegar þeir þyrptust um innganginn. Að lokum brutu stuðningsmenn Kólumbíu upp málmhliðin og hlupu inn á leikvanginn en þá reyndi Miami-Dade-lögreglan að hemja ástandið.
Síðan sáust áhorfendur standa víða um leikvanginn þar sem mannfjöldinn virtist telja fleiri gesti en sætin sem til voru á Hard Rock Stadium. Áætlað hefur verið að um sjö þúsund auka áhorfendur hafi verið til staðar ofan á 65 þúsund manna áhorfendafjöldann.
Argentína vann úrslitaleikinn eftir framlengingu, 1:0, þökk sé sigurmarki frá Lautaro Martínez.
Daginn áður höfðu skipuleggjendur hvatt aðdáendur til að mæta ekki á Hard Rock Stadium nema þeir væru með miða, en sú viðvörun dugði ekki til.
Gagnrýni á stjórnun suðurameríska knattspyrnusambandsins, CONMEBOL, birtist á netinu í miðri óreiðunni og voru skipuleggjendur leiksins hvattir til þess að segja af sér.
„Þetta var klikkun, fólk var bara að reyna að komast inn eins og brjálæðingar,“ sagði David Fernandez, aðdáandi Kólumbíu frá Flórída, við AFP-fréttastofu.
Nestor Lorenzo, þjálfari Kólumbíu, sagði að lið sitt hefði orðið fyrir áhrifum af seinkuninni á úrslitaleik Ameríkukeppninnar.
„Ég held að við höfum verið með mjög góða uppbyggingu fyrir leikinn en svo fóru að koma upp óvenjulegar aðstæður,“ sagði hann og vísaði til 82 mínútna seinkunar á leiknum af völdum mannfjölda og öryggisvandamála við innganginn á völlinn.
„Leikmennirnir hituðu upp, kældu sig niður og hituðu aftur upp, áður en byrjað var. Svo fengum við 25 mínútur í hálfleik, skrítnir hlutir fyrir bæði lið,“ sagði hann.
Þúsundir manna söfnuðust saman í Buenos Aires í morgun eftir sigur Argentínu en þar reyndi einn aðdáandi að klifra upp mannvirki við Obelisk til að veifa fána Argentínu en missti jafnvægið og féll sex metra til jarðar og lét lífið. Slökkvilið fjarlægði lík mannsins sem var 29 ára gamall.
Fagnaðarlætin stóðu í meira en fjóra tíma áður en lögreglan mætti á vettvang til að rýma göturnar.