Trump heldur ótrauður áfram

Blóðugur Trump steytir krepptan hnefa eftir tilræðið á laugardag.
Blóðugur Trump steytir krepptan hnefa eftir tilræðið á laugardag. AFP/Rebecca Droke

Donald Trump ætlar ekki að láta banatilræðið á laugardag trufla sig og því hélt hann í gær til Milwaukee þar sem flokksþing Repúblikanaflokksins hefst í dag. Þar verður hápunkturinn ræða Trumps á fimmtudag, þar sem hann mun taka við útnefningu flokksins til forsetaframboðs.

Trump sagði í gær að í fyrstu hefði hann ætlað að fresta flokksþinginu um tvo daga vegna hinna hræðilegu atburða, en sér hefði snúist hugur.

„Ég get ekki leyft skotmanni eða mögulegum launmorðingja að knýja fram breytingar á tímasetningum eða neinu öðru.“

Talið er að þessi viðburður kunni að hafa mikil áhrif á kosningabaráttuna, Trump til framdráttar.

Skotmaðurinn í 120 metra fjarlægð

Tilræðið átti sér stað á fundi stuðningsmanna Trumps í útjaðri bæjarins Butler í Pennsylvaníu, en um 10 mínútum eftir að Trump hóf kosningaræðu sína gullu við hvellir.

Af myndum sást hvernig Trump greip um hægra eyra sér, en beygði sig svo skjótt niður um leið og lífverði hans úr leyniþjónustunni dreif að.

Skotmaðurinn hafði komið sér fyrir á húsþaki í um 120 metra fjarlægð og skaut fjölda riffilskota að ræðustólnum.

Engu mátti muna að hann hæfði Trump í höfuðið, en hann felldi einn fundargesta og særði tvo aðra alvarlega. Örstuttu eftir að skothríðarinnar varð vart felldu skyttur leyniþjónustunnar tilræðismanninn.

Bendir ekkert til þess að árásarmaðurinn hafi átt sér aðra vitorðsmenn

Í ljós kom að hann var tvítugur maður úr nágrenninu að nafni Thomas Matthew Crooks, en flest er á huldu um hvað rak hann til þessara voðaverka.

Leyniþjónustunni var ókunnugt um hann og hann hefur ekki haft sig í frammi um stjórnmál svo vitað sé, þótt hann hafi um skeið verið skráður kjósandi repúblikana en síðar látið fé af hendi rakna til demókrata.

Ekkert bendir til þess að hann hafi átt sér aðra vitorðsmenn, en hins vegar fundust efni til sprengjugerðar í bíl hans.

Eftir að Crooks var felldur reis Trump á fætur, blóðugur í framan og lyfti krepptum hnefa um leið og hann hvatti stuðningsmenn sína til baráttu. Hann var svo fluttur í skyndi á sjúkrahús til aðhlynningar, en fyrir utan skotsár á eyra amaði ekkert að honum.

Joe Biden Bandaríkjaforseti var þegar í stað upplýstur um skotárásina og kvaðst þakklátur fyrir að Trump væri óhultur. Þeir áttu „stutt og kurteislegt“ símtal.

Auka ekki öryggisráðstafanir

Trump hrósaði leyniþjónustunni fyrir árvekni og fagmannleg vinnubrögð, en ekki eru allir sammála honum.

Ýmsar spurningar hafa vaknað um hvernig maðurinn komst upp á þak svo skammt frá fundinum, en eins er sagt að almennir borgarar hafi reynt að gera lögreglu viðvart um að hann væri að klöngrast þar án þess að hún hefði aðhafst nokkuð.

Leyniþjónustan hyggst ekki auka öryggisráðstafanir fyrir flokksþingið og segir þær þegar eins miklar og orðið gætu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka