Gamlir mótherjar taka til máls í kvöld

Bæði DeSantis og Haley buðu sig fram í síðasta forvali …
Bæði DeSantis og Haley buðu sig fram í síðasta forvali repúblikana. Samsett mynd/AFP

Gamlir mótherjar Donalds Trumps forsetaframbjóðanda munu taka til máls á öðrum degi landsfundar repúblikana í dag.

Má þar nefna sérstaklega Nikki Haley, fyrrverandi ríkisstjóra Suður-Karólínu, sem bauð sig fram í forvali flokksins gegn Trump.

Bæði Haley og Trump skutu föstum skotum hvort að öðru í þeirri baráttu en í maí greindi Haley frá því að hún myndi kjósa Trump. Í þessum mánuði tilkynnti hún svo að allir hennar kjörmenn á landsfundinum myndu styðja Trump.

Á sunnudag fékk Nikki Haley boð um að taka til …
Á sunnudag fékk Nikki Haley boð um að taka til máls. AFP/Scott Eisen

DeSantis með ræðu á eftir Haley

Það var ekki fyrr en eftir banatilræðið gegn Trump sem að Haley var boðið að taka til máls á landsfundinum. Eftir skotárásina hefur Trump talað um að reyna sameina frekar en að sundra og var því litið á þetta sem skref í átt að því að sameina flokkinn.

Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída-ríkis, bauð sig einnig fram í forvalinu en dró framboð sitt til baka í janúar og lýsti yfir stuðningi við Trump. Hann mun vera með ræðu í kvöld á eftir Haley.

Ron DeSantis mun ávarpa landsfundinn í kvöld.
Ron DeSantis mun ávarpa landsfundinn í kvöld. AFP/Getty Images/Chip Somodevilla

Trump tekur til máls á lokadeginum

Marco Rubio, öld­unga­deild­arþing­maður frá Flórída, mun einnig taka til máls í kvöld en hann var talinn einn af þeim líklegustu til þess að verða varaforsetaefni Trumps. 

Rubio mætti Don­ald Trump í for­vali Re­públi­kana árið 2016 en endaði í 3. sæti.

Landsfundurinn verður fram á fimmtudag og mun J.D. Vance, varaforsetaefni Trumps, taka til máls á morgun. Donald Trump mun svo halda ræðu á lokadeginum.

Donald Trump ásamt J.D. Vance.
Donald Trump ásamt J.D. Vance. AFP/Brendan Smialowski
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert