Leggja til næsta forsætisráðherra Frakklands

Þrír flokkar Nýju lýðfylkingarinnar vilja að Laurence Tubiana verði næsti …
Þrír flokkar Nýju lýðfylkingarinnar vilja að Laurence Tubiana verði næsti forsætisráðherra Frakklands. AFP/Ludovic Marin

Þrír flokkar af fjórum í Nýju lýðfylkingunni, bandalagi vinstriflokka í Frakklandi, hafa lagt til að Laurence Tubiana verði forsætisráðherra Frakklands. 

Græningjar, Sósíalistar og Kommúnistar leggja til að Tubiana verði forsætisráðherra. Þingmenn stærsta flokks bandalagsins, La France Insoumise (LFI), hafa þó gefið í skyn að þeir séu ólíklegir til að samþykkja hana.

Nýja lýðfylkingin náði flestum þingsætum í þingkosningunum 7. júlí en er þó langt frá því að ná þingmeirihluta. Hún tryggði sér 188 sæti á þinginu.

Miðjubandalag Emmanuels Macron Frakklandsforseta fékk 161 sæti og Þjóðfylking Marine Le Pen tryggði sér 142 sæti. Alls eru 577 sæti á franska þinginu. 

Hver er Laurence Tubiana?

Tubiana er 73 ára hagfræðingur, diplómati og fræðimaður. Hún starfaði sem aðalsamningsmaður Parísarsamkomulagsins árið 2015 og hefur frá árinu 2017 verið formaður loftlagsstofnunar Evrópusambandsins. 

Þá var hún einnig ráðgjafi ríkisstjórnar Sósíalistaflokksins á árunum 1997 til 2002 en er að öðru leyti óflokksbundin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert