Mun mögulega styrkja Trump um tugi milljarða

Elon Musk kaus áður ávallt Demókrata en hefur á síðustu …
Elon Musk kaus áður ávallt Demókrata en hefur á síðustu árum byrjað að hallast meira að Repúblikönum. AFP/Alain Jocard

Elon Musk er sagður munu styðja við pólitíska aðgerðarnefnd [e. political action committe], sem styður Donald Trump forsetaframbjóðanda, um það sem nemur tugum milljörðum króna.

Dagblaðið Wall Street Journal (WSJ) greinir frá og hefur þetta eftir fólki sem er kunnugt um málið.

Fram kemur að Musk hyggist styðja aðgerðarnefndina um 45 milljónir dollara á mánuði. Óljóst er hvenær nákvæmlega fyrstu framlög myndu koma en kosningarnar verða haldnar 5. nóvember.

Lýsti yfir stuðningi eftir banatilræðið

Ef hann myndi veita styrk af þessari upphæð næstu fjögur mánaðamót þá væru það 180 milljónir dollara, sem væru yfir 25 milljarðar króna.

Aðgerðarnefndin heitir America Pac og aðrir helstu styrktaraðilar þess eru Joe Lonsdale, meðstofnandi Palantir Technologies, Winklevoss tvíburarnir, Kelly Craft, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna, og eiginmaður hennar, Joe Craft, sem er framkvæmdastjóri Alliance Resource Partners.

America Pac kveðst einblína á að skrá kjósendur og sannfæra þá um að kjósa snemma, en þar hafa Demókratar hingað til haft mikið forskot fram yfir Repúblikana.

Musk lýsti formlega yfir stuðningi við Trump um helgina eftir að Trump var skotinn í eyrað í banatilræði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert