Réð lögreglan ekki við verkefnið?

Öryggisþjónustan fjarlægir Trump af sviðinu.
Öryggisþjónustan fjarlægir Trump af sviðinu. AFP/Rebecca Droke

Enn er óljóst hvernig Thomas Matthew Crooks komst upp á þak byggingar þar sem hann skaut að Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, á kosningafundi hans í Pennsylvaníuríki á laugardag.

Sérfræðingar hafa gagnrýnt öryggisþjónustu Bandaríkjanna fyrir öryggisgæslu á svæðinu. Kimberly Cheatle, forstjóri öryggisþjónustunnar, þarf líklega að svara fyrir þetta á fundi eftirlits- og ábyrgðarnefndar fulltrúardeildar Bandaríkjaþings 22. júlí, en ýmsar spurningar hafa vaknað upp á meðal sérfræðinga og almennings í kjölfar árásarinnar. 

Voru viðvaranir um Crooks látnar ganga eftir?

Sjónarvottur að skotárásinni sagði við breska ríkisútvarpið að hann, ásamt fleirum, hefðu séð Crooks á þakinu með riffil. Þau hefðu gert lögreglu viðvart en byssumaðurinn hefði haldið áfram að færa sig á þakinu áður en hann hóf skothríðina. 

Sýslumaðurinn í Pennsylvaníuríki hefur staðfest að lögreglumaður á svæðinu hafi orðið var við Crooks á þakinu en hafi ekki getað ekki stöðvað Crooks í tæka tíð. Ekki liggur fyrir hvort þessar upplýsingar hafi náð til þeirra fulltrúa öryggisþjónustunnar sem voru í nálægð við Trump. 

Gagnrýnin beinist fyrst og fremst að því hvort lögregla og öryggisþjónusta hafi haft nægilega góð samskipti sín á milli. 

Lagði öryggisþjónustan of mikið traust á lögregluna?

Byssumaðurinn skaut frá svæði sem var undir eftirliti lögreglunnar á svæðinu. Því hafa vaknað upp spurningar um hvort öryggisþjónustan hafi lagt of mikið traust á lögregluna. 

Fyrrverandi fulltrúi öryggisþjónustunnar sagði í kjölfar árásarinnar að svona fyrirkomulag virkaði aðeins ef skýr áætlun lægi fyrir um hvernig skyldi bregðast við ef hætta steðji á. 

Sýslumaðurinn í Pennsylvaníuríki hefur viðurkennt að um misbrest hafi verið að ræða en segir að enginn einn eigi sök á því. 

Var öryggisviðbúnaður nógu mikill?

Fyrrverandi formaður eftirlitsnefndar neðri deildar Bandaríkjaþings hefur gefið í skyn að lögreglan á staðnum hafi ekki verið þjálfuð í að tryggja nægilegt öryggi á staðnum.

Þá hefur hann einnig gefið í skyn að starfmenn öryggisþjónustunnar hafi ekki verið nógu vel dreifðir um svæðið. 

Trump setur hnefann upp í loft til að láta stuðningsmenn …
Trump setur hnefann upp í loft til að láta stuðningsmenn sína vita að hann sé óhultur. AFP/Rebecca Droke

Var Trump komið nógu skjótt í skjól?

Fulltrúar öryggisþjónustunnar sem skýldu Trump hafa fengið hrós fyrir skjót viðbrögð, en spurningar hafa vaknað um hvort að Trump hafi verið komið nógu fljótt í bíl og af svæðinu. 

Myndskeið af atvikinu sýnir þá mynda skjöld í kringum Trump eftir að hann er skotinn en staldra svo við þegar Trump stoppar og biður um að fá að setja skóna sína á.

Þá stoppar Trump á leiðinni af sviðinu og setur hnefann upp í loft til þess að sína stuðningsmönnum sínum að hann sé óhultur. 

Jeffrey James, sem er reynslubolti úr leyniþjónustunni, sagði New York Times að ef hann hefði verið að störfum hefði hann ekki beðið.

„Ef ég hefði verið þarna, þá nei. Við erum að fara og við erum að fara núna. Ég hefði þá bara keypt handa honum nýja skó,“ sagði James.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert