Réðu barnabarnið sem leigumorðingja

Bifreiðin sem barnabarnið ók á Per á miklum hraða. Til …
Bifreiðin sem barnabarnið ók á Per á miklum hraða. Til er upptaka af símtali ömmunnar, frænku eiginkonu Pers, þar sem hún heyrist biðja barnabarnið að bakka yfir Per til öryggis eftir ákeyrsluna. Neitaði barnabarnið þar sem fólk væri komið á vettvang. Þóknun þess átti að vera 500.000 bött. Skjáskot/Úr þættinum Mændenes Paradis á DR

„Hjónaband okkar hefur verið eðlilegt, fyrir utan þetta óheppilega atvik,“ segir danski verkfræðingurinn „Per“ í samtali við danska ríkisútvarpið DR og gengur ekki undir frekari nöfnum í viðtali um þann atburð þegar taílensk eiginkona hans til 28 ára lagði ásamt frænku sinni á ráðin um að koma Dananum fyrir kattarnef.

Ásældust þær frænkan meinta líftryggingu Pers og réðu leigumorðingja til að vinna verkið þegar hann skrapp í hjólreiðatúr skammt frá heimili þeirra í Taílandi í apríl 2022 en þau hjónin höfðu þá búið jöfnum höndum í Danmörku og Taílandi um langt árabil og haldið hús á báðum stöðum.

Man Per það síðast atburða að bifreið var ekið á hann á miklum hraða, 70 til 100 kílómetra miðað við klukkustund, og rankaði hann svo við sér á taílenskri gjörgæsludeild þar sem hann lá í þrjár vikur með brotinn hryggjarlið og sprungur í hálshryggjarliðum.

Per ræðir við DR í þættinum Mændenes Paradis sem fjallar …
Per ræðir við DR í þættinum Mændenes Paradis sem fjallar um líf danskra karlmanna í Taílandi. Skjáskot/Úr þættinum Mændenes Paradis á DR

Líftryggingin tóm tjara

Smám saman rann beiskur raunveruleikinn upp fyrir Per þar sem hann lá á gjörgæsludeildinni. Kona hans hafði ætlað að ryðja honum úr vegi og komast þar með yfir líftryggingarfé hans, tíu milljónir taílenskra batta, um það bil tvær milljónir danskra króna og þar með um það bil 40 milljónir íslenskra króna.

Líftryggingin var þó tómur misskilningur, hana hafði Per ekki en kona hans þóttist af einhverjum ástæðum viss um annað og gekk hreint til verks.

„Ég var heppinn að þau völdu lítinn fólksbíl til verksins, hefði þetta verið pallbíll væri ég dauður,“ segir Per við DR en hann er einn viðmælenda ríkisútvarpsins í þáttaröðinni Mændenes Paradis, eða Paradís karlmannanna, þar sem hann segir ítarlega af tilræðinu og eftirmálum þess.

Þeir urðu einmitt nokkrir

Eiginkonan og frænkan hlutu báðar lífstíðardóm fyrir taílenskum dómstól í refsimáli sem reis af banatilræðinu. Kom á daginn við réttarhöldin að frænkan hafði ráðið barnabarn sitt til að koma Per fram af heiminum. Ekki getur DR um refsingu barnabarnsins hafi hún verið einhver, en hinar tvær dæmdu hafa báðar áfrýjað og má búast við að áfrýjunardómstóll taki málið fyrir með haustinu.

Taílenska lögreglan fer yfir atburðarás málsins á blaðamannafundi.
Taílenska lögreglan fer yfir atburðarás málsins á blaðamannafundi. Skjáskot/Úr þættinum Mændenes Paradis á DR

Eiginkonan hefur neitað DR um viðtal vegna málsins.

Getur Per þess einnig að hann hafi verið varaður við því að eiginkona hans kynni að brugga honum launráð vegna tryggingarfjárins en því segist hann einfaldlega hafa neitað að trúa og því skellt skollaeyrunum við.

„Í sumum taílenskum fjölskyldum er að finna mjög ákveðið fólk sem getur beitt mikilli ýtni til að ná sem mestu fé út úr karlmönnum,“ segir Christa Herum, prestur Dönsku kirkjunnar í taílensku höfuðborginni Bangkok, en danska ríkið heldur úti prestsembætti í Taílandi þar sem um það bil tíu þúsund Danir hafa fasta búsetu.

Vilja dönskum mönnum illt

Tekur Herum fram að hún þekki ekki til sögu Pers verkfræðings og máls hans, hins vegar þekki hún dæmi þess að taílenskar konur vilji dönskum mönnum sínum illt og séu þá ofbeldi og hótanir þekkt fyrirbæri. „Það er ekki óalgengt hér úti,“ segir sálusorgarinn danski við ríkisútvarpið.

Eiginkonan og frænka hennar í lögregluyfirheyrslu eftir að þær voru …
Eiginkonan og frænka hennar í lögregluyfirheyrslu eftir að þær voru handteknar fyrir tilræðið við Per. Þær hlutu báðar lífstíðarfangelsi en hafa áfrýjað. Skjáskot/Úr þættinum Mændenes Paradis á DR

Mál Pers er þó talið einstakt og það nagar hann inn að beini. Hvað sem öllu líður vill hann konu sína ekki innan fangelsismúranna þar sem hún situr nú. „Ég er henni ekki reiður. Það hlýtur bara eitthvað að vera að henni í höfðinu. Svona lagað er jú ófyrirgefanlegt, er það ekki?“ spyr verkfræðingurinn ríkisútvarp sitt ráðvilltur.

Per býr enn í húsi þeirra hjóna í Taílandi og hefur hugsað sér að gera það áfram. Næsti nágranni hans er tengdafaðir hans og samband þeirra byggir á traustasta grunni þrátt fyrir banatilræði af hálfu dóttur hans.

Eftir að áfrýjunardómstóllinn fellir sinn dóm bíður Pers næsta mál – að ganga frá skilnaði þeirra hjóna.

DR

Þættirnir Mændenes Paradis á DK

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert