Sveitalubbinn með Hvíta húsið í sigtinu

Landsfundur repúblikana hófst í gær og stendur yfir fram á …
Landsfundur repúblikana hófst í gær og stendur yfir fram á fimmtudag. AFP/Getty Images/Win McNamee

J.D. Vance, vara­for­seta­efni Don­alds Trumps, gagnrýndi Trump áður fyrr harðlega en er í dag einn hans helsti bandamaður. Báðir menn sýna að Repúblikanaflokkurinn hefur tekið breytingum og verði Trump kjörinn er Vance líklegur arftaki hans. 

Vance er öld­unga­deild­arþingmaður frá Ohio-ríki en á landsfundi repúblikana í gær var hann formlega útnefndur varaforsetaefni Trumps fyrir komandi forsetakosningar 5. nóvember. 

Vance er 39 ára og þar með á sama aldri og Richard Nixon var þegar Dwight D. Eisenhower tilnefndi hann sem varaforsetaefni sitt í kosningunum árið 1952.

Hann er fyrsti maðurinn af þúsaldarkynslóðinni til að vera varaforsetaefni og einnig sá fyrsti sem hefur verið í landgönguliði Bandaríkjahers [e. Marine Corps] til að vera útnefndur sem varaforsetaframbjóðandi.

Ef Trump næði kjöri yrði Vance fyrsti varaforsetinn síðan árið 1933 til að vera með skegg í embætti.

Höfðar til kjósendahóps Trumps

Vance var kjör­inn í öldungadeild Bandaríkjaþings árið 2022 en varð hins veg­ar fræg­ur árið 2016 fyr­ir ævi­sögu sína Hillbilly Elegy, eða lauslega þýtt Harmljóð sveitalubbans. Síðar var gerð kvik­mynd byggð á bók­inni og geta Íslend­ing­ar með áskrift að streymisveitunni Netflix horft á hana.

Donald Trump hefur á sínum pólitíska ferli höfðað til vinnandi fólks í ríkjum þar sem alþjóðavæðing hefur valdið því að verksmiðjur og störf hafa færst til annarra landa.

J.D. Vance höfðaði til þessa fólks með ævisögu sinni þar sem hann þekkir af eigin raun hvernig það er að alast upp á slíkum slóðum.

Móðir hans fíkill og vanrækti hann

Vance ólst upp við erfiðar aðstæður í stáliðnaðarbænum Middletown í Ohio. Móðir hans var fíkill og segir Vance að þegar vanrækslan hafi verið sem mest hafi hann sumpart alið sig upp sjálfur. Var það í 9. bekk, en í 10. bekk flutti hann til ömmu sinnar.

„Tölfræðin segir okkur að framtíðarhorfur hjá krökkum eins og mér eru ekki bjartar – að ef þeir eru heppnir komist þeir hjá því að lenda í velferðarkerfinu og ef þeir eru óheppnir þá deyi þeir af ofskammti af heróíni,“ skrifar Vance í bókinni.

Mikil fátækt var á heimili ömmu hans en hún gaf honum reiknivél og krafðist þess að hann stæði sig vel í skólanum.

Donald Trump og J.D. Vance á landsfundi repúblikana í gær.
Donald Trump og J.D. Vance á landsfundi repúblikana í gær. AFP/Brendan Smialowski

Lærði lögfræði í Yale

Fjölskylda hans á rætur að rekja til Appalasíufjalla, þar sem mörg fátækustu svæði Bandaríkjanna eru.

Í bókinni gagnrýnir hann hugarfar og ákvarðanir margra í fjölskyldunni og leggur áherslu á að fólk beri ábyrgð á eigin lífi. 

Hann gekk í landgöngulið Bandaríkjahers til þess að geta farið í nám í ríkisháskólanum í Ohio og eftir að hafa útskrifast úr skólanum með glæsibrag lærði hann lögfræði í Yale-háskóla.

Kjósendahópurinn stækkar líklega ekki

J.D. Vance hefur á undanförnum árum talað á svipaðan hátt og Donald Trump um ýmis málefni. Hann vill stöðva flæði ólöglegra innflytjenda yfir landamærin við Mexíkó, hækka og fjölga verndartollum, og minnka íhlutun Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi.

Hann hefur verið gagnrýninn á það hversu miklum fjármunum er varið í varnir Úkraínu gegn innrás Rússa og hefur sagt að enginn augljós endir sé í sjónmáli.

Val Trumps á Vance sýnir að Trump er kominn með töglin og hagldirnar í Repúblikanaflokknum og telur sig ekki þurfa að friða þann væng flokksins sem er hlynntari íhlutunarstefnu og frjálsari alþjóðaviðskiptum. 

Þá er ekki talið líklegt að kjósendahópurinn stækki við þetta val þar sem þeir eru með svipaðar skoðanir og höfða til sama hóps. Aftur á móti höfðar málflutningur þeirra beggja vel til margra kjósenda í sveifluríkjum eins og Wisconsin, Michigan og Pennsylvaníu. 

Vance var formlega útnefndur varaforsetaframbjóðandi repúblikana í gær eftir að …
Vance var formlega útnefndur varaforsetaframbjóðandi repúblikana í gær eftir að Trump tilnefndi hann. AFP/Getty Images/Andrew Harnik

Mögulegur arftaki Trumps

Sigri Trump í kosningunum getur hann aðeins setið í embætti í fjögur ár í viðbót og verður Vance þá í kjörstöðu eftir það fyrir næsta forval repúblikana, sem arftaki Trumps og stefnu hans. 

Með því að velja ungan mann eins og Vance þá er Trump líka að horfa til þess að áhrif hans á flokkinn verði varanleg. 

Vance þykir góður málsvari Trumps og hefur ekki hikað við að mæta í viðtöl hjá fjölmiðlum sem repúblikanar líta margir á sem vinstrisinnaða. Þá hlakkar í mörgum repúblikönum að sjá hann mæta Kamölu Harris, varaforseta Bandaríkjanna, í kappræðum. 

„Hann er klón af Trump, ég sé eng­an mun á þeim,“ sagði Biden við blaðamenn spurður um álit sitt á Vance á dögunum.

Trump er með sáraumbúðir á hægra eyranum eftir að 20 …
Trump er með sáraumbúðir á hægra eyranum eftir að 20 ára gamall maður skaut hann í banatilræði. AFP/Getty Images/Joe Raedle

Hafði lítið álit á Trump

En Vance hefur ekki alltaf verið jafn ötull stuðningsmaður Trumps og hann er í dag.

„Ég er „aldrei Trump-náungi“. Mér líkaði aldrei við hann.“

„Guð minn góður, þvílíkur fáviti.“

„Mér finnst hann skammarlegur.“

Þetta sagði Vance í viðtölum og á Twitter árið 2016 um Donald Trump. Sama ár sendi hann skilaboð á samstarfsfélaga sinn:

„Ég get ekki ákveðið hvort mér þyki Trump bituryrtur fáviti eins og Nixon, sem væri ekki sem verst (og gæti reynst gagnlegt) eða hvort hann sé Hitler Ameríku.“

Þegar Vance bauð sig fram í forvali repúblikana fyrir þingkosningarnar 2022 reyndust þessi ummæli honum fjötur um fót til að byrja með. Hann kvaðst þó vera búinn að skipta um skoðun eftir að hafa séð hvernig Trump stýrði Bandaríkjunum og fékk formlega stuðningsyfirlýsingu frá Trump.

Washington Post

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert