Trump fékk hetjulegar móttökur

Donald Trump á landsfundinum í gærkvöld.
Donald Trump á landsfundinum í gærkvöld. AFP

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, fékk hetjulegar móttökur þegar hann gekk inn á landsfund Re­públi­kana­flokks­ins í Milwaukee í gærkvöld.

Trump var með sárabindi um hægra eyrað en sem kunnugt er var reynt að ráða hann af dögum á kosningafundi í Pennsylvaníu á laugardaginn.

Trump mætti til fundarins þegar um klukkustund var eftir að formlegri dagskrá við mikinn fögnuð fundargesta. Hann hélt ekki tölu á fundinum og eftir að hafa veifað til félaga sinna settist hann niður með varaforsetaefni sínu, J.D.Vance.

Trump hrærður yfir lófaklappinu

Trump var hrærður yfir lófaklappi sem hann fékk frá samflokksmönnum sínum sem margir hverjir voru með tár á hvarmi en fljótlega eftir að þingið hófst tilnefndu tæplega 2.500 fulltrúar repúblikana Trump formlega sem forsetaframbjóðanda sinn í atkvæðagreiðslu með nafnakalli.

Landsfundurinn stendur fram til fimmtudags en á lokadeginum er búist við því að Trump haldi sína fyrstu ræðu sem opinbert forsetaefni repúblikana og tjái sig í fyrsta sinn eftir morðtilraunina gegn honum. 

Donald Trump ásamt varaforsetaefni sínu, J. D. Vance.
Donald Trump ásamt varaforsetaefni sínu, J. D. Vance. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert