Varfærnisleg viðbrögð Rússa

Vladimír Pútín, forseti Rússlands. Dmitry Peskov er í baksýn.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands. Dmitry Peskov er í baksýn. AFP/Vyacheslav Oseledko

Rússnesk stjórnvöld hafa brugðist varfærnislega við ummælum Úkraínuforseta í gær um að Rússar eigi að taka þátt í annarri ráðstefnu um varanlegan frið á milli Úkraínu og Rússlands.

Rússar fengu ekki að taka þátt í síðustu ráðstefnu sem var haldin í Sviss í síðasta mánuði.

„Fyrsta friðarráðstefnan var alls ekki friðarráðstefna. Kannski er nauðsynlegt að vita fyrst hvað hann er að meina,“ sagði Dmitry Peskov, talsmaður rússneskra stjórnvalda á sjónvarpsstöðinni Zvezda, um ummæli Volodimír Selenskí Úkraínu­for­seta.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti.
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti. AFP/Sergei Supinsky

Það að Selenskí virðist hafa boðið Rússum að taka þátt í næstu ráðstefnu ber merki um breyttan tón síðan ráðstefnan í Sviss var haldin, en í aðdraganda hennar útilokaði hann alfarið þátttöku Rússa.

Úkraínski herinn hefur átt í vök að verjast á víglínunni og tapað landsvæðum að undanförnu. Á sama tíma eru forsetakosningar í fullum undirbúningi í Bandaríkjunum og gæti niðurstaða þeirra haft áhrif á þróun stríðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert