Almenningur fékk ekki nægan aðgang að bóluefnasamningum

Framkvæmdastjórnin var einnig gagnrýnd fyrir að opinbera ekki SMS milli …
Framkvæmdastjórnin var einnig gagnrýnd fyrir að opinbera ekki SMS milli von der Leyen og forstjóra lyfjaframleiðandans Pfizer. AFP

Fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins sýndi ekki nægi­legt gagn­sæi þegar hún samþykkti kaup­samn­inga um bólu­efni gegn Covid-19 árið 2020, að mati næ­stæðsta dóm­stóls Evr­ópu.

Dóm­ur­inn fell­ur aðeins degi áður en kosið er um fram­boð Ursulu von der Leyen, for­seta fram­kvæmda­stjórn­ar ESB, til nýs kjör­tíma­bils. Reu­ters greina frá.

Sum­ir þing­menn á Evr­ópuþingi hafa gagn­rýnt hvernig fram­kvæmda­stjórn­in af­greiddi kaup­samn­ing­ana á sín­um tíma en samn­ing­arn­ir voru upp á millj­arða evra.

Fram­kvæmda­stjórn­in er einnig gagn­rýnd fyr­ir að birta ekki SMS-sam­skipti milli von der Leyen og for­stjóra lyfja­fram­leiðand­ans Pfizer. Von der Leyen bar fyr­ir sig að hún hefði ekki geymt skila­boðin.

Al­menn­ing­ur fékk ekki nægi­lega góðan aðgang

Fram­kvæmda­stjórn­in und­ir­ritaði samn­inga við bólu­efn­is­fyr­ir­tæk­in AstraZeneca, Sanofi GSK, John­son & John­son, Bi­oNTech, Pfizer, Moderna og fleiri þegar far­ald­ur­inn stóð sem hæst.

Nokkr­ir þing­menn á Evr­ópuþing­inu óskuðu eft­ir aðgangi að skjöl­un­um til að skoða skil­mál­ana. Fram­kvæmda­stjórn­in veitti þó aðeins aðgang að hluta þeirra og af­skráði sum skjöl­in, sagði það gert til að vernda viðskipta­hags­muni og ákv­arðana­töku­ferlið.

Ursula von der Leyen.
Ursula von der Leyen. AFP/​John Thys

Þing­menn­irn­ir vísuðu því mál­inu til Al­menna dóm­stóls­ins (e. Europe­an Gener­al Court) í Lúx­em­borg, sem staðfesti í morg­un að stjórn­in hefði ekki verið nægi­lega gagn­sæ. 

„Fram­kvæmda­stjórn­in veitti al­menn­ingi ekki nægi­lega víðtæk­an aðgang að kaup­samn­ing­um um bólu­efni gegn COVID-19,“ seg­ir í niður­stöðu dóm­stóls­ins. „Fram­kvæmda­stjórn­in sýndi ekki fram á að víðtæk­ari aðgang­ur að þess­um ákvæðum myndi í raun grafa und­an viðskipta­hags­mun­um þess­ara fyr­ir­tækja,“ seg­ir enn frem­ur.

Dóm­stóll­inn hafnaði einnig rök­um fram­kvæmda­stjórn­ar ESB, sem báru fyr­ir sig friðhelgi einka­lífs.

Úrsk­urður­inn „mik­il­væg­ur fyr­ir framtíðina“

Fram­kvæmda­stjórn­in seg­ist ætla að kynna sér ákvörðun dóm­stóls­ins og hvaða áhrif þeir hefðu og áskilja sér laga­leg­an rétt. Hún get­ur skotið mál­inu til Evr­ópu­dóm­stóls­ins, æðsta dóm­stóls Evr­ópu.

Fram­kvæmda­stjórn­in ætti nú að vera gagn­særri í ákv­arðana­töku sinni eft­ir dóm­inn, að sögn Kim van Spar­ren­tak lög­fræðings sem ásamt sam­starfs­mönn­um sín­um lagði fram kær­una fyr­ir dóm­stól­inn.

„Þessi úr­sk­urður er mik­il­væg­ur fyr­ir framtíðina, þar sem bú­ast má við að fram­kvæmda­stjórn­in taki að sér fleiri sam­eig­in­leg inn­kaup á sviðum eins og heil­brigðis- og varn­ar­mál­um,“ sagði van Spar­ren­tak enn frem­ur. „Nýja fram­kvæmda­stjórn­in þarf nú að aðlaga meðferð sína á beiðnum um aðgang að gögn­um til sam­ræm­is við dóm­inn í dag.“

Á fimmtu­dag greiðir Evr­ópuþingið at­kvæði um fram­boð von der Leyen til ann­ars fimm ára kjör­tíma­bils.

Umboðsmaður ESB sakaði fram­kvæmda­stjórn­ina árið 2022 um mis­ferli í op­in­beru starfi, vegna þess að hún birti ekki texta­skila­boð von der Leyen við Al­bert Bourla, for­stjóra Pfizer. New York Times kærði fram­kvæmda­stjórn­ina fyr­ir að birta ekki skila­boðin.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert