„Eins og djöfullinn hefði búið þarna“

Meðferðarheimilið í Sundsvall reyndist skálkaskjól fíkniefnaneyslu, -innflutnings og -dreifingar. Vissulega …
Meðferðarheimilið í Sundsvall reyndist skálkaskjól fíkniefnaneyslu, -innflutnings og -dreifingar. Vissulega var þar langt leidda fíkla að finna innandyra, en enginn þeirra var í neins konar meðferð. Skjáskot/Öryggismyndavél

„Það er ömurlegt að sjá þetta,“ segir Jacob Andersson, leigusali húsnæðis í Sundsvall, bæjar um 340 kílómetra norðan við sænsku höfuðborgina Stokkhólm. Hafði Andersson leigt húsnæðið fyrirtæki sem rak þar meðferðarheimili fyrir langt leidda fíkniefnaneytendur. Eða svo hélt hann.

Vissulega voru vistmennirnir langt leiddir fíkniefnaneytendur. Þeir voru hins vegar ekki í meðferð af neinu tagi heldur bullandi neyslu á meðan forsvarsmaður fyrirtækisins tók við greiðslum frá sveitarfélaginu fyrir að halda úti þjóðþrifastarfsemi.

Starfsemin var hins vegar aðeins skálkaskjól fyrir umfangsmikið fíkniefnasmygl sem féll eins og spilaborg þegar maðurinn var handtekinn í febrúar, en í gær hlaut hann sjö ára dóm fyrir smyglið og hafði annað eins magn fíkniefna, 455.149 töflur, aldrei verið tekið í Västernorrland-fylki.

Var þar meðal annars um að ræða ópíóðaverkjalyfið Tramadol, bensódíasepínskylda svefnlyfið Zopiclone og sljóvgandi lyfið Pregabalin sem gefið er við flogaveiki, taugaverkjum og vefjagigt.

Hluti lyfjanna sem maðurinn smyglaði til Svíþjóðar. Um metmagn var …
Hluti lyfjanna sem maðurinn smyglaði til Svíþjóðar. Um metmagn var að ræða í Västernorrland-fylki, hátt í hálfa milljón taflna af meðal annars Tramadol, Zopiclone og Pregabalin. Ljósmynd/Sænska lögreglan

Hélt úti síðu á lýðnetinu

Hlaut samverkamaður meðferðarstöðvarmannsins fjögurra ára dóm og þegar að því kom að Andersson, eigandi húsnæðisins í Sundsvall, gekk á vettvang til að kanna ástand fasteignarinnar féll honum allur ketill í eld.

„Það var eins og djöfullinn hefði búið þarna,“ segir Andersson við sænska ríkisútvarpið NRK en hann þurfti að bora út lás eins rýmisins í húsnæðinu til að komast þangað inn. Segir hann sprautur og nálar hafa legið eins og hráviði út um allt og húsnæðið hreinlega litið út eins og svínastía.

Rekstraraðilinn, sá sem dæmdur var í gær, hélt úti trúverðugri heimasíðu meðferðarheimilis síns á lýðnetinu og efuðust fulltrúar sveitarfélagsins hvergi heldur greiddu honum þau gjöld sem hefðbundnu meðferðarheimili hefði borið að fá. Á yfirborðinu var allt slétt og fellt.

Heimasíðan hefur nú verið fjarlægð og eins nánast öll ummerki um meðferðarheimilið sem leitarvélar ættu að hafa upp á.

Eigandi númersins kom af fjöllum

Þegar fréttamenn SVT hringdu í það sem skráð var símanúmer heimilisins svaraði sænskur maður sem kvað ónæðið vera orðið gríðarlegt. Númerið væri vinnusíminn hans sem hann hefði haldið úti í fimm ár. Í vetur hefðu honum hins vegar tekist að berast símtöl í tíma og ótíma sem augljóslega áttu ekki að beinast til hans. Var þar um að ræða fólk sem vildi fá að koma í heimsókn auk þess sem nokkrum sinnum hafði verið hringt frá bænum – Sundsvall.

Sú staðreynd að númerið var augljóslega ekki réttilega tengt þeirri starfsemi, sem fíkniefnasmyglarinn hafði gefið upp á heimasíðu meðferðarheimilis síns, virtist þó ekki hafa vakið neinar grunsemdir eða kallað á heimsókn fulltrúa sveitarfélagsins.

SVT hefur ítrekað reynt að ná tali af fulltrúum Sundsvall til að kanna hvernig sambandi bæjaryfirvalda við stjórnanda meðferðarheimilisins var háttað en ekki haft erindi sem erfiði nú yfir hásumarfrístímann.

SVT

SVTII (dómurinn í gær)

SVTIII (lok aðalmeðferðar 5. júlí)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert