Íranir hafna allri aðild að banatilræðinu

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. AFP/Angela Weiss

Íranir hafna því sem þeir kalla „illkvittnar“ ásakanir bandarískra fjölmiðla um að hafa komið að banatilræði á Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna.

CNN fréttastofan greindi frá því í gær að bandarísk yfirvöld hefðu fengið upplýsingar frá heimildarmanni fyrir nokkrum vikum um meint samsæri Írana gegn forsetanum fyrrverandi og því hefði verið þörf á að efla vernd hans.

Ekk­ert bend­ir þó til þess að bys­sumaður­inn Thom­as Matt­hew Crooks hafi verið tengd­ur þess­um áætl­un­um.

Ásakanirnar órökstuddar

Þjóðaröryggisráð Bandaríkjanna segist hafa fylgst með hótunum Írana gegn Trump og ríkisstjórn hans í mörg ár eftir að stjórnvöld í Íran hótuðu hefndum fyrir drápið á Qasem Soleimani, írönskum herforingja, í drónaárás Bandaríkjamanna í Írak árið 2020.

Sendinefnd Írans hjá Sameinuðu þjóðunum segir að ásakanirnar séu „órökstuddar og illkvittnar“.

Herforinginn Qasem Soleimani sem féll í drónaárás Bandaríkjamanna.
Herforinginn Qasem Soleimani sem féll í drónaárás Bandaríkjamanna. AFP

Ætla að sækja Trump til saka

Nasser Kanani, talsmaður utanríkisráðuneytis Írans, segir að Íranir „hafni eindregið allri aðild að nýlegri vopnaðri árás gegn Trump“.

Hann segir þó að Íranir væru enn „ákveðnir í að sækja Trump til saka fyrir beinan þátt hans í morðinu á Qasem Soleimani hershöfðingja“.

Soleimani var yfirmaður utanríkismála í byltingarvarðasveit Írans og hafði umsjón með hernaðaraðgerðum Írana í Miðausturlöndum.

Trump fyrirskipaði drónaárásina sem varð Soleimani að bana, rétt fyrir utan flugvöllinn í Bagdad.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert