Meirihluti demókrata vill að Biden hætti við

Biden hefur átt erfitt uppdráttar síðustu vikur.
Biden hefur átt erfitt uppdráttar síðustu vikur. AFP

Ný skoðanakönnun sýnir að nærri tveir þriðju demókrata vilja að Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, dragi framboð sitt til forseta til baka. Þá taka um 7 af 10 Bandaríkjamönnum í sama streng. Ljóst er að fólk hefur áhyggjur af færni Bidens til þess að sinna embættinu í fjögur ár til viðbótar. 

AP fréttaveitan greinir frá þessu.

Könnunin var framkvæmd dagana 11.-15. júlí en var að mestu lokið áður en að Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, varð fyrir skotárás í Butler í Pennsylvaníu-ríki á laugardag. 1.253 manns tóku þátt í skoðanakönnuninni.

Efast um vitsmunalega getu Biden

Biden hefur átt erfitt uppdráttar eftir kappræðurnar sem hann átti við Trump og leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins sem fór fram 9.-11. júlí. Á fundinum kallaði hann Selenskí, forseta Úkraínu, Pútín og sagði Trump þegar hann átti við varaforseta sinn, Kamölu Harris. Þrátt fyrir þetta hefur Biden haldið ótrauður áfram og ítrekað að hann muni ekki stíga til hliðar.

Könnunin leiðir í ljós að aðeins 3 af hverjum 10 demókrötum treysti því að Biden hafi vitsmunalegu getu til að sinna embættinu, en það eru lítið færri en í fyrri könnunum. 

Telja Trump líklegri

Þegar kemur að Trump vilja 6 af hverjum 10 Bandaríkjamönnum að hann dragi framboð sitt til baka en fáir repúblikanar leynast í þeim hópi. 

Þá telja um 42% Bandaríkjamanna Trump líklegri til þess að bera sigur úr býtum í kosningunum í nóvember. 18% telji Biden líklegri.

Sé litið til þess hvern Bandaríkjamenn telja betri til þess að eiga við krísuástand eru 38% Trump megin og 28% Biden megin. Biden er þó talinn hreinskilnari en Trump, 40% segja hann hreinskilnari á meðan 2 af hverjum 10 telja Trump vera það. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka